Þessa uppskrift fékk ég hjá mömmu, sem mælti með henni í bak og fyrir.
Ég var efins.
Eggaldin? Jakk. Aldrei hef ég getað borðað það. Nema hjá einum kokki, henni Lotte sem rekur Lotte's Sandwichbar við Kronprinsessegade í Kaupmannahöfn. Ég á góðar minningar frá sumrinu 2006: skottast til Lotte, fá sér dýrindis grænmetisloku og skottast svo í Kongens Have í pikk nikk. Lotte hlóð súrum gúrkum, hummus, osti og, síðast en ekki síst, grilluðu eggaldini á grænmetislokurnar og hver munnbiti var sæla.
Það er því kannski Lotte að þakka að ég lét slag standa og ákvað að treysta meðmælum mömmu. Ég eldaði þennan rétt fyrir sambúðarafmæli okkar Baldurs og við sleiktum diskana. Jömmí!
Og rétturinn er tiltölulega einfaldur í ofanálag. Ef frá er talið að skera eggaldin í þunnar sneiðar, salta og bíða. En maður getur verið að lesa með tærnar upp í loft á meðan maður bíður, sem er ekki svo slæmt í mínum bókum.
HVAÐ
2 eggaldin
1 lítill laukur
2 hvítlauksrif
olía til steikingar
1 dós tómatar
3 tsk tómatkraftur
30-50 grænar ólívur, niðursneiddar
Salt og pipar
50 g ferskur parmesanostur, rifinn
HVERNIG
1. Skerið eggaldinin í þunnar sneiðar (langsum eða þversum) og leggið á bökunarpappír.
2. Stráið vel af salti yfir hverja sneið fyrir sig og leyfið að liggja í 1-2 tíma. Saltið dregur beiska bragðið úr eggaldinu og hjálpar því að halda lögun sinni við matreiðslu.
3. Hitið ofninn upp í 200°C.
4. Þerrið sneiðarnar með pappír, stingið svo eggaldinsneiðunum inn í ofn og bakið í 15 mín.
5. Útbúið sósuna: Saxið lauk og merjið hvítlauk, steikið á pönnu.
6. Bætið tómötum og tómatkrafti útí.
7. Leyfið suðu að koma upp, látið þá malla í 30 mín. og smakkið svo til með salti og pipar.
8. Raðið í eldfast mót. Til skiptis: eggaldinsneiðar, tómatsósa, ólívur og rifinn parmesanostur.
9. Setjið inní ofn í 45 mín. á 200°C.
Með þessu bar ég fram hvítlauksbrauð og hið dásamlega sæta hátíðarsalat. Veislumatur!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli