mánudagur, 23. september 2013

Helgarpistillinn


Þessa helgina lágum við yfir síðustu þáttunum af True Blood. Við byrjuðum að horfa fyrr í mánuðinum og áttum þá eftir hálfa fimmtu seríu og alla sjöttu seríu. Það er skemmst frá því að segja að við hökkuðum þættina í okkur - eða kannski væri meira viðeigandi að segja að við drukkum þá í okkur? Við kláruðum altént síðustu þættina um helgina og sátum eftir í sófanum, starandi stjörfu augnaráði út í bláinn. Þvílík þeysireið sem þessir þættir eru!

Frá True Blood að öðrum málefnum. Ég er búin að skrá mig í tvö námskeið hjá coursera. Coursera gerir manni kleift að sækja námskeið sem hinar ýmsu virtu háskólastofnanir útí heimi bjóða upp á. Þetta nýja fyrirbæri kallast MOOC, sem er skammstöfun á mass open online courses, og gengur út á að ótakmarkaður fjöldi kemst að til að hlusta á fyrirlestrana og læra saman með því að spjalla á spjallþráðum.

Námskeiðin sem ég skráði mig í eru Plagues, Witches and Wars: The Worlds of Historical Fiction sem kenndur er við University of Virginia og A History of the Worlds since 1300 sem kenndur er við Princeton. Sá síðarnefndi hófst fyrir viku síðan, og ég er komin á kaf í að lesa um Svarta dauða. Sá fyrrnefndi hefur síðan göngu sína eftir þrjár vikur, og ég er sérstaklega spennt að fylgja honum eftir því flottir rithöfundar mæta á svæðið til að fjalla um verk sín og svara fyrirspurnum. Geraldine Brooks er þeirra á meðal. People of the Book, anyone? Geggjað!

En að stóru spurningunni... hvað er með þetta myndband hér að ofan?

Í síðustu viku röltum við upp að Åletjern einu sinni sem oftar, og þá fór Baldur á hnén... og gerði pýramída armbeygjur. Ég fékk sem betur fer að vera í friði og taka upp atganginn.

Síðast en ekki síst: Ég er núna farin að vinna í afgreiðslunni í Elixia. Hjálpi mér allar vættir! Ég kem ekki nándar nærri öllum setningunum frá mér á skammlausri norsku, langt í frá reyndar, né skil ég allt sem við mig er sagt (hvað er með allar þessar mállýskur?), ég er enn ekki farin að geta svarað í símann (nema til að segja: jeg er under opplæring, her kommer en som kan hjelp deg), en ég er svakalega stolt af mér fyrir að dýfa mér í kalda laugina og er fullkomlega sátt við ófullkomna norsku. Í bili.

En ég kan að segja Så bra! lýtalaust. Það kemur manni langt í Noregi.

Engin ummæli: