föstudagur, 13. september 2013

{HRÁFÆÐI} Spænsk morgunverðarhræra

Spænsk morgunverðarhræra hráfæðiskokksins

Hér er réttur sem ég hef nokkrum sinnum útbúið. Sumarið 2008, þegar ég prófaði hráfæði í fyrsta sinn, komst ég í kynni við hana Ani Phyo og þessa fínu uppskrift hennar að spænskri morgunverðarhræru. Í ljósi þess hve ötullega ég hef bakað undanfarna daga og vikur var kroppurinn á mér alveg til í smá U-beyju og því henti ég saman í spænska morgunverðarhræru.

Þetta er svakalega auðveld og fljótleg uppskrift, og einnig ljúffeng. Ferskt kóríander og mildur vorlaukur gefur réttinum mjög skemmtilegt bragð og tómatarnir hjálpa til við að djúsa hann aðeins.

HVAÐ
1 bolli möndlur
0,5 bolli sólblómafræ
1 tsk túrmerik
0,25 tsk salt
0,25 - 0,5 bolli vatn
0,5 bolli tómatar, í teningum
2 msk vorlaukur, niðurskorinn
0,25 bolli kóríander, gróft saxað
nokkur spínatblöð
klípa af svörtum pipar

HVERNIG
1. Setjið möndlur, sólblómafræ, túrmerik og salt í matvinnsluvél.
2. Látið vélina ganga þangað til möndlur og fræ hafa hakkast vel saman. Bætið þá við smá vatni, þangað til innihaldið fer að loða vel saman.
3. Hellið möndlu-fræhrærunni í stóra skál.
4. Hrærið saman við tómötum, vorlauk, kóríander og pipar.
5. Leggið spínatblöð á disk. Þjappið hluta af hrærunni í ausu eða skál og hvolfið henni síðan yfir spínatblöðin til að fá fallega formaðan rétt á diskinn.

Allt er vænt sem vel er grænt!

Spænsk morgunverðarhræra hráfæðiskokksins

Engin ummæli: