föstudagur, 18. október 2013

Súkkulaðiterta með jarðarberjum

Súkkulaðiterta með jarðarberjum

Það er föstudagur og þá er komið að föstudagsuppskriftinni. Súkkulaðiterta! Hver slær hendinni á móti annarri eins dásemd?

Þegar við bjuggum á eyjunni góðu í norður Noregi og deildum húsi með litlu Svíunum okkar Alexander og Petru bakaði Alexander stundum það sem hann kallaði kladdkaka. Hún var jättebra, sérstaklega með vaniljekrem sem þau, rétt eins og Norðmenn, heimtuðu að setja ofan á alla eftirrétti.

Þessi terta hér minnir mjög svo á þessa góðu kladdkaka. Hún er mjúk, svolítið blaut og með ríkulegu súkkulaðibragði.

Þessa uppskrift fann ég hjá henni Evu Laufey.

HVAÐ
140 g smjör, við stofuhita
100 g flórsykur
3 egg
170 g súkkulaði, brætt
2 msk hveiti
1 tsk vanillusykur
2 msk kakó

HVERNIG
1. Hitið ofninn í 180°C.
2. Hrærið saman smjör og flórsykur þangað til blandan verður létt og ljós.
3. Bætið við eggjunum einu í einu.
3. Hellið bræddu súkkulaðinu saman við og hrærið vel.
4. Bætið loks við hveitinu, vanillusykrinum og kakóinu og hrærið saman við.
5. Hellið deiginu í vel smurt 24 sm form.
6. Bakið í 25-30 mín.

Með þessu er ansi gott að fá sér fersk jarðarber og góðan vanilluís.

Engin ummæli: