miðvikudagur, 6. nóvember 2013

DIY Graskersmauk

DIY Graskerspurée

Ég keypti grasker um daginn í Kiwi. Rosalega fallegt, appelsínugult, hnöttótt og bústið. Norskt meira að segja.

Ég keypti það fyrir Hrekkjavökuna, rétt eins og ég keypti grasker í Hagkaup í fyrra þegar við vorum á Snorrabrautinni. Það grasker endaði sína lífdaga í gluggakistunni okkar þar sem það brotnaði aðeins meira niður á hverjum degi þar til ég viðurkenndi ósigur minn og skúbbaði því í ruslið.

Eeeen þetta grasker! Þetta grasker skyldi ekki fara sömu leið. Ég ákvað fljótt að ég tímdi eiginlega ekki að nota þennan fallega ávöxt jarðar til að skera út í það. Í staðinn ákvað ég að elda eða baka úr því og fór af stað í að skoða uppskriftir. Ég komst að því að besta nýtingin á graskeri er að vinna úr því mauk sem síðan má nota í hinar ýmsustu uppskriftir. Og það er einmitt það sem ég gerði.

Leiðbeiningar að því hvernig maður býr til graskersmauk fann ég hjá henni Stephanie á joyofbaking.com. Hún segir að best sé að búa til mauk úr smáum graskerjum sem ekki eru þyngri en 3,5 kg. Graskerið sem ég hafði keypt var 2,5 kg svo það fékk að vera með í leiknum!

Þetta er í rauninni sáraeinfalt, mesta vinnan er í lokin þegar maður kreistir vökva úr maukinu.

HVAÐ
Smávaxið grasker 2 - 3,5 kg.

HVERNIG
1. Hitið ofninn í 175°C. Skerið toppinn af graskerinu og skerið síðan graskerið í tvennt.
2. Fjarlægið öll fræ og allt innvols innan úr graskerinu.
3. Leggið báða helmingana á góða ofnskúffu og notið frekar heila skúffu með háum köntum heldur en ofnplötu með lágum köntum (eins og ég gerði og fékk að kenna á því síðar). Leggið á bökunarpappír og inní ofn í 45-75 mín. Tíminn sem graskerið þarf að vera í ofninum er háður stærð þess. Graskerið mitt þurfti bara 45 mín. Stingið hnífi í graskerið til að sjá hvort það sé bakað í gegn, hnífurinn á að renna auðveldlega inn. Leyfið graskerinu að kólna eftir að það kemur úr ofninum. Athugið að þegar þið takið graskershelmingana af plötunni rennur af þeim mikill vökvi. Þess vegna er mikilvægt að hafa heila skúffu svo gólfin verði ekki skúruð upp úr graskersvökva þann daginn eins og mín gólf voru!
4. Skerið burt hýðið. Þið gætuð jafnvel náð að rífa það auðveldlega af eins og ég sá gert í einu kennslumyndbandi en það grasker var mjög smátt, ábyggilega ekki meira en 1,5 kg. Mér tókst allavega ekki að bara rífa hýðið af, eins og það hefði nú verið gaman! Setjið graskerið í matvinnsluvél og maukið þar til áferðin er falleg og mjúk að sjá. Sígið frá allan umframvökva. Umframvökvann má síðan geyma og nota í súpur eða pottrétti til að bragð- og næringarbæta.

Geymist í ísskáp í allavega 2-3 daga. Svo má líka frysta maukið og nota það síðar í kökur, bökur og pottrétti. Sneddí!

Engin ummæli: