föstudagur, 15. nóvember 2013

Ofnbakað rótargrænmeti með linsum og timjan

Ofnbakað grænmeti
 
Ég er búin að útbúa þetta rótargrænmetissalat einu sinni í viku í allt haust. Það er einfalt, bragðgott og fjölhæft því maður getur notað hvaða rótargrænmeti sem maður á hverju sinni.
 
Ég er reyndar búin að prófa þetta salat það oft núna, og í hinum ýmsustu útsetningum, að ég er komin með mína uppáhaldsútgáfu af honum: kartöflur, sætar kartöflur, sellerírót og gulrætur. Einn bolli af hverju og þá fær maður bestu útgáfuna af þessu heita linsubaunasalati.
 
Þá er ég líka búin að prófa að útbúa þetta salat með hvítvínsediki þar sem ég átti ekki sherríedik í fyrstu, en eftir að hafa prófað réttinn með sherríediki mæli ég eindregið með því. Ef maður er á annað borð duglegur að nota edik, eða sér fram á að gera þennan rétt oft, þá er um að gera að kaupa sér sherríedik.
 
HVAÐ
1 bolli þurrar, grænar linsur
2 sellerístilkar, niðursneiddir
4 bollar rótargrænmeti í teningum (t.d. gulrætur, sellerírót, steinseljurót, pastínökkur (nípur), sætar kartöflur, kartöflur, rófur, rauðrófur)
1 rauðlaukur, saxaður
1 msk þurrkað timjan
3 msk ólívuolía
0,5 tsk Herbamare salt
3 msk steinselja, söxuð
1,5 msk sherrí edik
 
HVERNIG
1. Hitið ofninn í 200°C.
2. Gott er að leggja linsurnar í bleyti um morguninn ef tími gefst til þess. Annars er líka hægt að sjóða þær beint en það styttir suðutímann að leggja þær í bleyti fyrst. Skolið linsurnar vel og sjóðið þær í söltu vatni í 20-25 mín. eða þar til þær eru mjúkar en halda enn lögun sinni. Hellið þeim í sigti og leggið til hliðar.
3. Skellið niðursneiddu grænmetinu og selleríinu í góða skál. Hellið 2 msk af ólívuolíu yfir og stráið salti og timjan yfir. Blandið olíu og kryddum vel saman við grænmetið.
4. Klæðið ofnplötu með álpappír, hellið grænmetinu yfir og dreifið vel úr því svo það verði aðeins eitt lag á plötunni. Inní ofn í 25 mín. Það er gott um miðbik tímans að opna og hræra aðeins í grænmetinu.
5. Blandið saman grænmetinu og linsunum í skálinni. Hellið yfir 1 msk af olíu og 1,5 msk af sherríediki. Bætið steinseljunni við. Hrærið upp í salatinu.

Mér finnst besta að bera þetta salat fram með góðu brauði og Rondelé  rjómaosti. Þegar ég hef tíma fyrir mér þá finnst mér gaman að bera þetta heita salat fram með vegan salatinu.
 

Engin ummæli: