miðvikudagur, 18. desember 2013

Jólatréð skreytt

Við skreyttum pínkuponsu litla jólatréð okkar í fyrrakvöld og höfum að ég held aldrei verið svona snemma í því áður. Einu sinni skreyttum við jólatréð á jóladag, eða var það annan í jólum? Við vorum augljóslega ekkert að stressa okkur þau jólin.

En þessi jólin virðist svolítið vera trendið að skreyta tréð snemma því ég hef séð þónokkrar myndir af upplýstum jólatrjám á facebook bæði í gær og í dag. Við virðumst því, alveg óvart, vera með í einhverri verum-snemm-í'ðí bylgju.

Við skreyttum síðast tréð jólin 2010. Síðan þá hefur tréð og skrautið sem því fylgir verið í geymslu. Það var því enn skemmtilegra en ella að skreyta tréð.

Fyrir mér er Hnotubrjóturinn alger boðberi jólanna og því fékk hann að spilast á meðan við skreyttum tréð. Baldur kveikti upp í kamínunni með nýjum sekk af björk sem okkur barst sama dag. Ég bakaði líka kanilsnúða og á meðan þeir voru í ofninum fengum við að föndra við að ná í sundur jólaseríum og tylla gylltum og rauðum kúlum á greinar. (Allur jólasnjór er farinn svo við verðum að leggja aukalega á okkur til að ná upp jólastemmningu. Það stefnir í græn jól eins og Norðmenn segja.)

Þegar við vorum búin að skreyta settumst við niður við tréð með kanilsnúða og mjólk í glasi og nutum þess að horfa á ljósin.

Nú vantar bara pakkana undir til að fullkomna skreytt tréð. Við ætlum að kippa því í liðinn næstu helgi og versla jólagjafir handa hvort öðru. Ég hlakka mikið til. Ekki síst þó vegna víetnamska veitingastaðarins sem er í uppáhaldi hjá okkur og sem við ætlum einmitt að heimsækja í leiðinni. Mmm...

Jólaundirbúningur
 
Jólaundirbúningur
 
Jólaundirbúningur
 
Jólaundirbúningur
 
Jólaundirbúningur

Engin ummæli: