föstudagur, 20. desember 2013
Kanilsnúðar með súkkulaðiglassúr
Hér kemur uppskriftin að kanilsnúðunum sem ég bakaði um daginn, þegar við vorum að skreyta tréð.
Þessir snúðar eru svolítið í seigari kantinum, ekki eins dúnamjúkir og aðrir snúðar sem ég hef bakað. En deigið er afskaplega meðfærilegt og ég hef aldrei fengið eins jafna og fallega snúða áður eins og ég fékk úr þessu deigi.
Svo skellir maður smá súkkulaðiglassúr ofaná og hellir mjólk í glas og lætur sig dreyma um jólin. Nú, eða bara það sem mann langar mest í! Það má alveg baka þessa snúða hina ellefu mánuði ársins!
Uppskriftina fékk ég hjá Evu Laufey. Ég helmingaði uppskriftina sem var mjög hæfilegt fyrir okkur tvö en ef það eru fleiri um snúðana mæli ég með að tvöfalda uppskriftina hér að neðan.
HVAÐ
Í deigið:
250 g hveiti
100 g sykur
1/2 tsk vanillusykur
1/2 tsk salt
1 1/4 tsk þurrger (12-13 g pressuger)
125 ml mjólk
35 ml ljós olía
1 egg
Í fyllinguna:
25 g púðursykur
50 g smjör
2 msk kanill
Í súkkulaðiglassúrinn:
50 g smjör, bráðið
150 g flórsykur
1/2 tsk vanillusykur
25 g kakó
1-2 msk sterkt, kælt kaffi
1/2 - 1 msk mjólk
HVERNIG
1. Blandið saman hveiti, sykri, vanillusykri og salti.
2. Hitið mjólkina í 40°C, hrærið þurrgerið út í þar til það er uppleyst.
3. Bætið út í mjólkina olíu og eggi og hrærið vel saman. Hellið yfir hveit-sykurblönduna og hrærið vel saman.
4. Breiðið rakt viskustykki yfir og leyfið að lyfta sér í 30-40 mín. á trekklausum stað.
5. Útbúið næst fyllinguna: Hitið smjör (ekki bræða) við vægan hita. Blandið saman sykri og kanil og takið af hellunni þegar smjörið er orðið mjúkt en ekki farið að bráðna alveg.
6. Hnoðið og fletjið út deigið á hveitstráðan flöt.
7. Smyrjið fyllinguna yfir og rúllið upp þannig að skurðurinn vísi niður.
8. Skerið í 2 sm snúða, raðið þeim á pappírsklædda ofnplötu, leggið rakt viskustykki yfir og leyfið að lyfta sér í 30 mín.
9. Hitið ofninn í 170°C.
10. Stingið inní ofn í 13-15 mín.
11. Á meðan snúðarnir kólna er ráð að útbúa glassúrinn: hrærið öllu saman og bætið við mjólk eða kaffi til að þynna hann eftir þörfum. Berið á snúðana og ta-da: þeir eru reddí!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli