þriðjudagur, 26. febrúar 2002

Fiðrildi í mallanum

Nú er klukkan nákvæmlega 09:07 og enn eru 53 mínútur í að ég fái heimaprófið í hendurnar. Núna er ég farin að vera smá stessuð en ég sé samt ekki neina ástæðu til þess að stressa sig nokkuð yfir þessu, það er gaman að gera ritgerðir og ef ég lendi á efni sem ég tel mig ekki nógu færa í get ég alltaf lesið mig til um það.

Baldur keyrði mig hingað upp á Hlöðuna kl. átta í morgun og mér til mikillar hneykslunar var lokað! Það opnar ekki fyrr en 08:15 nákvæmlega. Þeir eru dálitlir lúðar þessir bókasafnskallar. Þeir fara þó sérstaklega í taugarnar á mér fyrir það eitt að telja Dewey kerfið vera einhverskonar trúarbrögð, það má sko alls ekki skrá og skipuleggja bækur nema eftir þessu kerfi.

Mannfræðin er að verða brjáluð á þessu (þar með talin ég að sjálfsögðu) því bækurnar okkar eru dreifðar út um allt bókasafn, það er engin mannfræðihilla eins og langflestir eru með, heldur þarf maður að leita innan um sálfræðina, félagsfræðina, stjórnmálafræðina, líffræðina o.s.frv. til að finna haldbærar heimildir. Svenni kennari hefur mikið rifist við þessa bókasafnsfræðinga og nú á að fara að taka upp betra kerfi. Þetta Dewey kerfi hefur algjörlega gengið sér til húðar og það eru ótal bækur sem eru einfaldlega týndar hérna því engin veit hvar þær eru að finna. Þvílík sóun á góðum bókum, mig verkjar í brjóstið (haha).

Ég er búin að undirbúa mig andlega fyrir þetta próf með því að taka all rækilega til á háskólaheimasvæðinu mínu, þ.e. heimasvæðið sem ég á í tölvunni. Ég var búin að vista fleiri tugi greina inn í my documents möppuna en ekki enn farin að flokka þær niður í möppur. En þar sem ég er soddan skipulagsfrík varð ég að gera eitthvað í málunum og núna er allt komið í röð og reglu, ég bjó m.a. til möppuna skóli, sem skiptist síðan í haust 2001 og vor 2002, undir þeirri síðarnefndu eru síðan að finna möppur fyrir hvert námskeið þessa misseris, þ.e. möppurnar etnógrafía eyjaálfu, þjóðernishópar og hagræn mannfræði. Ég er að fatta það núna að ég gleymdi algjörlega mentor-námskeiðinu, best að drífa í að búa til möppu fyrir það, annars verð ég andlega ekki rónni.