fimmtudagur, 12. júní 2003

Þúsund eikur

Í vinnunni þarf ég mikið að vinna með forritið EndNote sem geymir helstu upplýsingar um bækur og greinar sem maður er að vinna með. Þetta forrit auðveldar manni alveg svakalega vinnuna þegar kemur að greinaskrifum þar sem maður þarf aldrei sjálfur að skrifa aftur og aftur tilvitnanir eins og t.d. (Bowser, 1995).

Eina sem maður þarf að gera er að fara inn í þetta forrit og velja þá bók, grein, kafla eða hvaða heimild sem vitnað er í og þá kemur sjálfkrafa tilvísun. Rúsínan í pylsuendanum er að maður þarf síðan ekkert að vesenast við að búa til heimildaskrá sjálfur því EndNote sér um það fyrir mann þegar maður hefur lagt lokahönd á greinina sína.

Unnur Dís (sem ég vinn hjá) á alveg fullt af bókum og það hefur komið í minn hlut, sem aðstoðarmaður hennar, að taka hverja og eina bók og skrá hana nákvæmlega inní EndNote forritið. Þar koma fram upplýsingar eins og t.d. höfundur, titill, ritstjóri, útgáfuár, blaðsíðutal, útgáfufyrirtæki og síðast en ekki síst borg útgáfufyrirtækisins.

Og þá er ég komin að því sem mig langaði virkilega að tala um, þ.e. eina ákveðna borg. Flest þau útgáfufyrirtæki sem ég hef rekið augun í hafa útibú sín víðs vegar um heiminn og London er ansi vinsæl. Sú borg sem ég hef þó nokkru sinnum rekist á er borgin Thousand Oaks, sem útlagst gæti sem borg hinna þúsund eika.

Ef það er eitthvað sem heillar mig þá er það nafnið á þessari borg og er ég staðráðin í að heimsækja hana í framtíðinni.

Engin ummæli: