Á þessum fagra laugardegi ákváðum við skötuhjú að gera okkur glaðan dag hér í borginni við Sundið. Eftir sex vikur af því að koma okkur fyrir vorum við loks tilbúin í næsta skref: túrhestast. Við pökkuðum því niður myndavél og Kaupmannahafnarbókinni góðu eftir Tryggva Gíslason og hjóluðum af stað í átt að Langebro eða Löngubrú. Þar læstum við hjólunum og gengum norður með Christians Brygge sem á víst upphaflega að hafa gert Kaupmannahöfn að miðstöð viðskipta um norðanverða Evrópu.
Efst á dagskrá var að komast í siglingu um síki borgarinnar og stefnan var því tekin á Nýhöfn þar sem hægt er að komst í slíkar ferðir. Við tókum Netto bådene sem eiga víst að vera ódýrari en samkeppnisaðilinn. Við stigum um borð hjá Holmens Kirke og þaðan tók báturinn okkur í skemmtilega hringferð.
Margt var um manninn í bátnum og háværir skiptinemar sátu fyrir aftan okkur svo oft áttum við í stökustu vandræðum með að heyra í leiðsögumanninum en helstu atriðin skiluðu sér þó. Við sigldum framhjá Nationalbanken, Amalienborg Slot, Thorvaldsens Museum, undir Marmorbroen og auðvitað framhjá Litlu hafmeyjunni. Skemmtilegast fannst mér þó að sigla meðfram Nyhavn og Christianshavn kanal, stemmningin þar er svo einstaklega dönsk.
Að bátsferðinni lokinni var ákveðið að kíkja betur á Nyhavn en fara þetta sinn landleiðina að henni. Hún var alveg jafn skemmtileg í návígi og því ákváðum við að setjast að snæðingi á veitingastaðnum Nyhavn 17 og gæddum okkur á rauðsprettu með rækjum, kavíar og auðvitað remúlaði.
Þar sem það var nú einu sinni laugardagur - og við syndgum aðeins á laugardögum - fengum við okkur ekta belgíska vöfflu með soft-ice í desert.
1 ummæli:
Thid eruð nú meiri krúttin ; )Love ya kv. Mæja pæja í sveitinni og snjókomunni.
Skrifa ummæli