mánudagur, 17. október 2005

Komin til Terracina

Eftir langt ferðalag erum við komin á hótelið okkar í Terracina. Við tókum strætó út á flugvöll klukkan fimm í morgun og unnum titilinn þreytulegasta par vagnsins enda ansi þreytt eftir lítinn svefn. Flugið út eftir tók tvo tíma og eftir það tók við tveggja tíma rútuferð. Á Ciampino flugvelli rákum við augun í tvo hermenn með vélbyssur sem stóðu vörð við flugstöðina, frekar sérkennileg sýn svo ekki verði annað sagt.

Við komum á hótelið um tvö leytið. Í landi síestunnar þýddi það bara eitt: allt lokað. Og við sem vorum svo svöng! Við höfðum reyndar fengið rúnstykki í flugvélinni en Baldur vísaði bara til þeirra sem mylsnu. Við kíktum á hótelið sem er ansi flott. Það var byggt árið 2002 og allt því nýtt og snyrtilegt. Ekki skemmir fyrir að það er hannað í formi báts svo það er verönd á sitthvorum enda hússins í formi stafns og skuts. Geggjað!

Veðrið var milt en þungt yfir. Meðan við biðum eftir að verslanir bæjarins opnuðu gengum við niður á ströndina sem er fimm kílómetra löng og virkilega falleg. Strax á fyrsta klukkutímanum okkar á röltinu um bæinn rákumst við á fleiri ketti en við erum búin að sjá til samans þann tíma sem við erum búin að vera í Kaupmannahöfn (það sama gildir reyndar líka um Fiat!). Kettirnir hér eru þó frekar styggir margir hverjir og lái þeim það enginn þar sem aksturlag heimamanna er með ólíkindum. Í rólegheitargötum í kyrrlátum hverfum bruna ökumenn óhikað á 100 kílómetra hraða og það á götum þar sem gangandi vegfarendur verða að ganga á götunni vegna skorts á gangstéttum.

Toppurinn á deginum var að komast í kaupfélag heimamanna. Við gleymdum alveg hungrinu og eyddum góðum tíma í að skoða úrvalið í búðinni. Jólaundirbúningur var greinilega kominn á fullt skrið: margir hillumetrar af jólaskrauti og í ofaná lagt þrjú gervijólatré í hnapp, bíðandi þess að vera skreytt. Frekar skrýtin upplifun í ljósi þess að við erum hingað komin í nokkurskonar sumarfrí :)

Svo smá brandari í lokin. Jesús var Ítali. Af hverju segi ég það? Jú, hann bjó í heimahúsum til 33ja ára aldurs, hann taldi móður sína vera jómfrú og hún taldi hann vera guð sjálfan.

Engin ummæli: