500 g ýsa, þorskur, rauðspretta
2 msk sítrónusafi
400 g kartöflur
1-2 stk græn paprika
1 stk laukur
2 stk hvítlauksrif
1 dós niðursoðnir tómatar
1 tsk grænmetiskraftur
½ tsk pipar
½ tsk salt
1 tsk basilikum
40 g rifinn ostur
Þetta matreiddum við sumsé eftir kúnstarinnar reglum og bárum fram með nýbakaðri hvítlauksbagettu. Rétturinn smakkaðist þokkalega en okkur þótti helst til mikið vanta upp á krydderínguna (höfundarleyfi). Það gengur bara betur næst, hugsuðum við með okkur.
Þess má til gamans geta að um sama leyti árs fimm árum áður hafði ég rænt Ásdísi Maríu úr föðurhúsum undir því yfirskini að um kvöldverðarboð væri að ræða. Í tilefni af því að hún hefur enn ekki snúið aftur var viðbúnaður hinn mesti: kveikt á kertum, spariglösin tekin fram og lagt á borð af mikilli natni, servíettur og allt!
Meðan ég man, myndin hér að neðan er í algjöru ósamræmi við frásögnina og er hreint ekki af okkur skötuhjúum (rauðsprettuhjúum?) eins og ætla mætti. Hún fannst þvert á móti á fréttavef Baggalúts og er af dúettnum Wham.

Þessi atrenna heppnaðist að mörgu leyti betur en að sumu leyti verr. Af einhverjum ástæðum ákváðu nokkrar kartöfluskífur að eldast hægt, þær hafa kannski tilheyrt stofni æskujarðepla. Að öðru leyti var atrennan mjög góð og þá sérstaklega hvað krydderínguna varðar. Einnig á þorskurinn betur heima í þessu kombói en rauðsprettan. Varla þarf að taka fram að hvaða fiskréttur sem er smakkast betur sé fiskurinn keyptur á Íslandi.
Að lokum langar mig að þakka þeim sem á erindið hlýddu og sérstakar þakkir fær ritari minn, Ásdís María, fyrir óbilandi eljusemi og sérdeilis nytsamlegar tillögur við gerð textans. Því hvar væri maður ef maður þyrfti að vélrita sjálfur?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli