miðvikudagur, 22. febrúar 2006

Gott land - vond mynd

Ég mætti í þriðja tímann af The Asian Mystique í gær. Þar sem ég er yfirleitt að heiman í tæpa fimm tíma vegna þessa fannst mér ráðlegast að mæta með smurt nesti, en það er eitthvað sem ég hef ekki gert í háa herrans tíð. Það kom í ljós að handtökin voru ekki eins æfð og áður því það tók mig drjúga stund að smyrja brauð með osti og sultu, taka fram Lille Lise kakómjólk og Danone jógúrt, flysja appelsínu og bisa við að koma salthnetum í plasfilmu. Það hafðist þó á endanum og ég varð nestinu fegin seinna um daginn.

Í tímanum var horft á kvikmyndina The Good Earth. Þar sem ég hafði nýlokið við að lesa bókina var ég spennt að sjá hvernig til hefði tekist að koma sögunni á tjald. Ég gerði kannski of miklar væntingar því eftir tvo og hálfan tíma af því að horfa á bandarískan leikara og þýska leikkonu gera lífi Wang Lung og O-Lan skil á yfirdrifinn og ótrúverðugan hátt, svo ég minnist nú ekki á frammistöðu aukaleikaranna sem töluðu í sérkennilegri tónhæð og hlógu alltaf eins og brjálæðingar HA HA HA, komst bara þessi hugsun að: versta kvikmynd veraldar!

Eftir slíkar pyndingar var gott að komast heim og afeitra sig yfir kvikmyndinni The Usual Suspects. Baldur kom með þá kenningu að Keyser Söze stæði á baki þess að við vorum látin horfa á The Good Earth og finnst mér það ekki svo fjarstæðukennt. Það þarf einhvern illa innrættan og grimman til að gera öðrum annað eins, ég segi nú bara ekki annað.

Engin ummæli: