mánudagur, 24. apríl 2006

AIESEC ráðstefnan

Þá erum við komin heim eftir heljarinnar ráðstefnu. Um var að ræða árlega AIESEC ráðstefnu fyrir öll LC í Danmörku sem þýðir að við fengum að hitta meginþorra AIESEC meðlima Danaveldis. Við tókum ráðstefnuna með svo miklu trukki að við komum heim hálfveik og erum í dag að jafna okkur. Og samt vorum við fólkið sem fór snemma í háttinn! Ekki skil ég hvernig hinir komust af með svona lítinn nætursvefn.

Stutta útgáfan: Skemmtum okkur ótrúúúlega vel, kynntumst svo mikið af frábæru fólki héðan og þaðan: Rúmeníu, Indlandi, Þýskalandi, Guatemala, Brasilíu, Kenía, Tælandi, Filippseyjum, Líbanon, Kína, Austurríki, Bólivíu, Pakistan, Ástralíu, Nýja Sjálandi, Póllandi, Víetnam og Malasíu. Auk þessa kynntumst við UNIC félögum okkar enn betur. Það var mikið dansað, mikið hlegið, mikið hlustað, mikið talað, mikið unnið, mikið hugsað, mikið íhugað, lítið sofið, lítið borðað.

Langa útgáfan: Ferðalagið á ráðstefnuna gekk vel. Við mættum afskaplega sybbin á Forum metróstöðina klukkan sjö á föstudagsmorgun og hittum þar fyrir tveggjahæða rútu, UNIC meðlimina og CBS meðlimina. Leiðin lá til bæjarins Kliplev í Åbenrå, nánar tiltekið var ráðstefnan haldin í Stevninghus sem eru skátabúðir.

Til að komast á áfangastað þurftum við að keyra þvert yfir Sjáland og yfir Storebæltsbroen til að komast á Fjón. Ökuferðin yfir brúnna tekur um 20 mínútur og ekkert nema haf og sjóndeildarhring að sjá. Komið var við í Óðinvéum til að ná í fleiri AIESEC meðlimi en einnig til að leyfa okkur hinum að teygja úr okkur og anda að okkur fersku Odense lofti.

Stutt stopp í Óðinsvéum notað til að smella mynd af súperflottu rútunni okkar

Skjaldarmerki Óðinsvéa (höldum við)

Tíminn í rútunni var nýttur til að æfa nafnakall UNIC. Baldur hafði stungið upp á að við sýndum Tæ-kvon-dó æfingar og þar sem öllum leyst vel á það var ákveðið að æfa munstrin á stundinni. Hér má sjá Baldur kenna okkur hvernig maður blokkar með vinstri.

Þegar rútan renndi svo í hlað hjá Stevninghus var haldið með okkur beint inn í aðalfundasalinn og þar tók á móti okkur dynjandi tónlist, söngur og síðast en ekki síst dans. Að móttökuathöfninni lokinni tók við þétt dagskrá sem endaði í partýinu Global Village. UNIC meðlimir héldu þó ekki þangað fyrr en eftir eitt gott hópnudd.

Þemað á Global village í ár var frumskógurinn

Laugardagurinn hófst á því að hlusta á hvatningarræðu Derek Small. Honum finnst gott að láta hlustendur sína gera líkamsæfingar til að koma boðskap sínum á framfæri og þar sem hann vildi fá sterkan og stæðilegan sjálfboðaliða á svið var Baldur kallaður fram. Hann stóð sig síðan svona líka vel og gott ef gestir ráðstefnunnar hafi ekki fengið að heyra hann öskra á okkar ástkæra ylhýra: Ég er sterkasti maður í heimi!

Eftir hvatningarræðuna deildust gestir ráðstefnunnar niður í ólíka hópa. Þar sem við Baldur erum að hugsa um að fara í starfsnám fórum við í Working abroad brautina. Í þeim hópi voru saman komnir allir þeir meðlimir AIESEC sem ætlar sér í starfsnám á næstu mánuðum auk þeirra sem nú þegar eru í starfsnámi í Danmörku.

Leiðbeinendur þessarar brautar, þeir Rolf og José, veittu okkur hagnýtar upplýsingar um hverju búast má við í starfsnáminu og hvernig best er að undirbúa sig. Þessum fróðleik komu þeir á framfæri m.a. með því að láta okkur spila Bafa Bafa leikinn, hann var afspyrnuskemmtilegur.

Stund milli stríða

Kanínan Eyrnaslapi

Geitin Esmeralde

Um kvöldið klæddu allir sig upp í sitt fínasta púss fyrir galakvöldverð og verðlaunaafhendingu. Það er gaman frá því að segja að UNIC vann verðlaunin Frumkvæði ársins.

Fríður UNIC hópur. Vinstri efri röð: Sigrid (nýkjörin LCP), Baldur, Christian (nýkjörinn VP), Sannah (VPX), Sarah (nýkjörin VP) og Michael. Vinstri neðri röð: Ásdís, Benedikte (nýkjörin VP), Maria (nýkjörin VPF), Nina (VPPD), Trine (LCP) og Maria. Á myndina vantar Laurence, Fernando, Kötju og Rolf.


Reuben ráðstefnustjóri, flaug frá Amsterdam til að vera viðstaddur ráðstefnuna

Trine tekur á móti Frumkvæði ársins verðlaununum, nokkur gleðitár fengu að fylgja þakkarræðunni :0)


UNIC meðlimir í Boat race drykkjukeppni, töpuðu fyrir liði CBS

Á sunnudeginum sóttum við fleiri málþing og fundi og nýttum svo frímínúturnar á milli til að skrifa svokallaða sykurmola til þeirra sem við höfðum kynnst á ráðstefnunni. Hver gestur ráðstefnunnar átti sitt umslag og þessum sykurmolum stakk maður í umslag viðkomand. Á löngu leiðinni heim var virkilega notalegt að kúra sig með umslagið sitt og veiða upp sykurmolana.

Baldur hripar nokkra sykurmola á blað

Indverski AIESEC dansinn (einn af mörgum)

Sykurmolum laumað í umslög

Smáhesturinn Sleipnir

Baldur og Tushar

Engin ummæli: