miðvikudagur, 5. apríl 2006

Fróðlegur fundur

Við vorum á AIESEC fundi í kvöld, svokölluðum local committee (LC) fundi. Við Baldur erum meðlimir í UNIC hlutanum sem er einskonar útibú AIESEC fyrir Kaupmannahafnarháskóla (KU) og Hróarskelduháskóla (RUC) og var fundurinn á vegum þeirra.

Á fundinum voru nokkrir stjórnarmeðlimir UNIC staddir, m.a. Nina sem er VPPD, Sannah sem er VPX og Niels sem er VPF. Eins og sjá má er mikið um skammstafanir innan AIESEC. Það skondna er að ég er með á hreinu hvað allar þessar ofannefndu skammstafanir standa fyrir en ég veit enn ekki hvað AIESEC stendur fyrir.

Fundurinn var fyrst og fremst ætlaður að kynna hin ýmsu embætti innan UNIC en kosið verður í embætti nú í apríl og nýir meðlimir eru hvattir til að bjóða sig fram. Reyndar getum við Baldur ekki gert neitt slíkt þar sem gegna þarf stöðum fram í júlí á næsta ári en svo lengi verðum við ekki í Danmörku.

Helsti hvatinn fyrir okkur að mæta á fundinn var að heyra frá Rolf en hann var fyrir stuttu í starfsnámi í Indlandi á vegum AIESEC. Rolf vann fyrir grasrótarsamtök/áhugahóp (NGO) í borginni Chandigarh. Sú borg er höfuðborg Punjab héraðs í norðurhluta Indlands og gengur hún einnig undir nafninu Borgin fagra. Hann lét vel af dvölinni en hafði þó út á ýmislegt að setja, þá helst vinnumenningu Indverja. Hann ferðaðist einnig um landið og þá helst um Himalajafjöllin og myndirnar sem hann sýndi þaðan voru hreint út sagt stórkostlegar.

Eftir þennan fund er ég orðin ansi spennt fyrir að fara í starfsnám til Indlands. Best að fara að vinna í umsókninni.

Engin ummæli: