Í morgun átti sér stað ratleikur í litlu íbúðinni okkar. Baldur hafði nefnilega útbúið svo skemmtilegan páskaratleik og í verðlaun voru tveir súkkulaðipáskahérar.
Fyrsta vísbending var ofan á bókinni sem Baldur gaukaði að mér meðan ég var enn í svefnrofunum. Það tók mig nokkra stund að átta mig á að eitthvað lægi að baki þessu bókagauki og rak þá augun í miða skreyttum kanínusporum sem hafði að fela þessi skilaboð: Eru þetta kanínuspor? Nei! Þetta eru héraspor. En hvar eru hérarnir? Fóru þeir að vaska upp?
Greinilega kominn tími til að vakna og dröslast fram í eldhús. Á þornandi leirtaui í grindinni fann ég síðan aðra vísbendingu: Kæra hvolparófa, þetta eru gömul spor. Það er langt síðan þeir fóru í teboð (Lísa í Undralandi) í skápinn hjá pokarottunni.
Inn í teskáp fann ég þriðju vísbendinguna límda innan á skápshurðina: Pokarottan kjaftar frá: Þeir fóru ekki saman og þeir sögðu að ef enginn fyndi þá báða yrðu engir páskar! Annar þeirra var víst svikinn (180°C).
Inn í ofninum fann ég annan hérann og fjórðu vísbendinguna: Ó takk fyrir að bjarga mér fagra fljóð! Ég get sagt þér að páskahéri frændi minn ætlaði í gymmið.
Ég inn í anddyri til að finna íþróttatöskuna, rakst þar á fimmtu vísbendinguna: Ha, ha! Löngu búinn á æfingu og farinn í Irmu að kaupa prótínsjeik...
Aftur inn í eldhús að gramsa í Irmu pokanum okkar, í botni hans var sjötta vísbendingin: Sjeikarnir voru búnir svo ég skýst frekar í Nettó. Kv. Páskahérinn.
Þegar þarna var komið sögu var ég að verða hálfringluð á ratleiknum og í stað þess að finna sjöundu vísbendinguna fann ég hinn hérann. Ég sá glitta í hann ofan á eldhúsinnréttingunni falinn bak við morgunverðarkorn.
Baldur var ekki allskostar sáttur við þetta og heimtaði að ég héldi leiknum áfram. Undir Nettó poka sem lá á eldhúsborðinu fann ég sjöttu vísbendinguna: Ég trúi þessu ekki, Kornflex á tilboði! Gamli pakkinn kominn aftur. Vei, vei, víííí.
Og þá varð ég að ná í stól, klifra upp á hann og ná í páskahérann minn sem óskaði mér gleðilegra páska. Þess óska ég ykkur líka.
Og hér eru svo þeir félagar.
2 ummæli:
En skemmtilegur ratleikur. Hvernig smökkuðust svo súkkulaðihérarnir?
Afskaplega vel þakka þér fyrir. Annar var þýskur, hinn franskur, sá franski var einmitt sá svikni, gaman að því.
Skrifa ummæli