fimmtudagur, 4. maí 2006

Dýrðardagar

Það var frábært veður í gær og svo virðist sem veðurguðirnir ætli að endurtaka leikinn í dag. Það var nú eiginlega Fjólu að þakka að ég fór út fyrir hússins dyr í gær, hún stakk upp á labbitúr um Botanisk Have með henni og litla Kjartani.

Þar sem veðrið hefur ekki verið upp á marga fiska undanfarið varð ég bit þegar ég steig kappklædd út og gekk á hitavegg. Ullarkápunni var snarlega stungið í hjólakörfuna enda ekkert vit í að dúða sig í svona hita, hjólandi í þokkabót.

Þegar ég hafði haft upp á þeim mæðginum röltum við þríeykið um Botanisk Have, yfir í Rosenborg Have og enduðum á því að tylla okkur á grasflöt í Kongens Have. Þar úði og grúði af sumarþyrstum borgarbúum sem ýmist lágu í grasinu eða héldu sér uppteknum í allskonar boltaleikjum.

Þegar ég hafði sagt skilið við þau mæðgin rölti ég yfir í bygginguna sem hýsir félagsvísindadeild Kaupmannahafnarháskóla. Planið var að mæta síðar um daginn á LC fund hjá UNIC og þar sem skrifstofa þeirra er á Købmagergade var tilvalið að rölta yfir í skólann og drepa tímann við lærdóm. Það var líka kærkomin hvíld frá sólinni, ég veit samt ekki hvort maður má segja svona :S

Núna ætla ég að kíkja út í góða veðrið með Baldri, pakka niður frísbí og vínberjum, taka fram hjólin og stefna á Bellahøj. Þetta eru framúrskarandi góðir tímar.

Glaður og kátur í góða veðrinu

Mæðginin í Kongens Have

Þetta veggjakrot var á einum vegg salernisaðstöðunnar upp í skóla, mér fannst þetta svo artý

Engin ummæli: