Hundaskítur, hundaskítur, pikknikk, teikningar, hundaskítur.
Þetta voru helstu frönsku þemu gærdagsins. Það byrjaði með því að í morgunhreyfingunni steig ég fyrst með hægri fæti í hundaskít (óheppni) og svo gerði ég það sama með vinstri fæti (heppni).
Það er kannski ekki öllum kunnugt en Frakkar telja það til heppni að stíga með vinstri fæti í hundaskít. Ekki tel ég þó að þeir lesi neina merkingu úr því þegar maður stígur með hægri fæti í hundaskít og þess vegna má líta á slíkt atvik sem merkingarlausa óheppni.
Franska þemað hélt áfram síðar um daginn þegar við hjóluðum að Statens Museum for Kunst til að pikknikka og berja svo teikningar franskra listamanna augum. Sýningin samanstóð af teikningum, skissum og vatnslitamyndum. Mörg verkanna heilluðu okkur en þó sérstaklega framlag listamannanna Jean-François Millet, Constantin Guys, Auguste Rodin, Émile-Othon Friesz, Paul Signac, Francis Picabia og Victor Vasarely.
Eftir sýninguna héldum við örþreytt að hjólunum okkar til að leggja af stað heim á leið. Tók ég þá eftir að framhjólið mitt stóð í... hundaskít.
2 ummæli:
Ih, hvor irriterende! Tíhí
Það er allaveganna greinilega hægt að hafa það skítt án þess að hafa það skítt...
Skrifa ummæli