Fyrsta áfanga er lokið: í morgun lauk ég loks greiningu á rannsóknargögnum MA verkefnisins. Ég er búin að lesa öll viðtölin vandlega yfir, lita í þau, krota og krassa og skrifa upp úr þeim þemaskipta samantekt. Sem sagt allt eftir bókinni.
Það er reyndar eitt sem Helga Þórey mælti með við okkur í tímum í Eigindlegum sem mér hefur láðst að gera. Hún talaði um að viðtölin ættu að vera svo marglesin og margflett að það ættu að vera kaffiblettir á stöku stað í bland við krass og krot.
Þar sem ég drekk ekki kaffi hefur ekkert gengið að fá kaffibletti á nóturnar. Ég hef hins vegar stundum hellt upp á bláberjate og drukkið yfir nótunum en ég er greinilega algjör snyrtipinni því mér hefur ekki heldur tekist að fá bláberjate í nóturnar. En þær mega eiga eitt: þær eru skrautlegar.
Nú tekur við næsta skref sem er mjög spennandi: skrifin. Til að fagna þessum áfangasigri ætlum við skötuhjú í bæjarferð síðdegis, borða á Morgenstedet og jafnvel kíkja á La Galette til að fá crepu í desert.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli