miðvikudagur, 29. nóvember 2006

Vikan sem leið

Á þeirri viku sem liðið hefur frá síðustu færslu höfum við Baldur gert mest lítið sem telst til tíðinda. Er það kannski saga til næsta bæjar?

Eitt það skemmtilegasta var bíltúrinn sem við fórum í í hávaðaroki laugardagskvöldið síðasta. Við keyrðum út á Gróttu með vasaljós og dönsuðum í takt við norðurljósin. Þá hoppuðum við eins hátt og við gátum í von um að vindurinn myndi hrifsa okkur með sér lengra inn í land, þó ekki inn í varplendið.

Annað skemmtilegt var að ég hélt þriðja erindið um MA ritgerðina mína á mánudaginn var. Hin tvö voru annars vegar upp í Háskóla og hins vegar í Rótarýklúbbi Grafarvogs. Í þetta sinn mætti ég hins vegar á fund JCI Esju og kynnti þeim efni ritgerðarinnar með góðum árangri. Ánægðust var ég með fundargesti sem héldu mér í pontu í dágóðan hálftíma með spurningum sínum, geri aðrir betur.

Að lokum er vert að nefna að við tókum afdrifaríka ákvörðun í vikunni sem leið. Þar sem það gengur hægt fyrir sig að sækja um vinnu í Indlandi nennum við ekki lengur að bíða eftir því að það gangi í geng heldur ákváðum við að sækja bara um ferðamannaáritun og vona að hún dugi til þó við séum í raun að fara til að vinna.

Við lukum við að fylla út umsóknina í dag, fengum ávísun í norskum krónum hjá Fríðu í bankanum, vorum búin að útvega passamyndir og eftir heimsóknir á fjögur pósthús urðum við okkur loksins úti um svarmerki og gátum sent pakkann af stað. Núna er bara að vona að 1) við fáum vegabréfsáritun til Indlands og 2) áritunin berist í hús vel fyrir jól svo við getum vaðið í flæðarmálinu á vesturströnd Indlands um jólin.

Engin ummæli: