mánudagur, 19. febrúar 2007

Kertasturta

Sturtuaðstaðan í gistihúsinu mínu er ferkar fábrotin eins og ég hef áður minnst á. Sturtan virkar ekki svo maður verður að láta sér duga fötubað og sjaldnast er heitu vatni fyrir að fara. Ég hef því þann vanann á að fara í sturtu í Robertson House, þar er nefnilega alltaf heitt vatn og ekkert vandamál.

Þegar ég ætlaði í sturtu í kvöld vildi ljósið hins vegar ekki kvikna, ég varð pirruð (því ég var svo þreytt eftir Mysore ferðina og vildi bara komast í sturtuna mína) og þegar Baldur lét mig fá pínkulítinn kertastubb til að taka með mér inn í niðamyrkrið gerði ég það skartandi ygglibrún.

Ég komst svo að því að kertasturta var einmitt það sem ég þurfti á að halda. Óransgul birtan af loganum lék um herbergið og léði því mjög róandi stemmningu. Ég kom því frísk og glöð úr sturtunni og enn sybbnari en fyrr.

Ég er svo sybbin að ég held varla augunum opnum, ég er svo sybbin að ég stefni á að vera komin upp í rúm upp úr níu og ég vona bara að ég nái að láta eplaolíudropa á koddann minn fyrir svefninn. Þá á maður víst að fá dýpri svefn og vakna útsofinn, eða svo var mér sagt.

Engin ummæli: