laugardagur, 3. mars 2007

Bless Bangalore!

Þá er dvöl okkar hér í Bangalore á enda og kominn tími til að halda á vit næstu ævintýra. Á þessum tveimur mánuðum fór vel um okkur í risastórborginni. Við kynntumst góðu fólki, lærðum nýja hluti og sáum nýjar hliðar á okkur sjálfum.

Hér eru nokkur dæmi. Í Bangalore:
Smakkaði ég í fyrsta sinn badami mjólk sem er algjört nammi. Hana fékk ég síðan á hverjum degi í vinnunni, lukkunarpamfíllinn.

Reifst ég eitt sinn heiftarlega um fargjald í strætó, miðasölumaðurinn ætlaði að rukka mig tveimur rúpíum of mikið (það eru heilar þrjár krónur!)

Titlaði Simon mig Remote Control Queen. Ég held það hafi verið vegna þess að ég handfjatlaði fjarstýringuna af stöku öryggi og festu, en ég er samt ekki viss.

Fékk það að læra hindi nýja merkingu. Í hvert sinn sem herbergisfélagi Baldurs, Valery, fór upp í herbergi og sagðist ætla að læra hindi lítum við Baldur flissandi á hvort annað og tókum svo að hrjóta og dotta á staðnum. Þar sem hann sofnaði alltaf yfir hindi lærdómnum drógum við þá ályktun að það að læra hindi væri sama og að fá sér kríu.

Lærði ég að fást við autobílstjóra. Ef þeir fara að prútta um verðið sem samið var um í upphafi eftir að hafa komið manni á áfangastað er best að segja: Sixty or nothing. Að sjálfsögðu ber að hafa í huga að 60 er ekki föst upphæð í þessari formúlu

Keypti ég alla vega 15 bækur

Voru Hollendingar ekkert sérstaklega í náðinni hjá okkur. Þeir gengu illa um alla daga, alltaf. Þar að auki voru þeir yfirþyrmandi margir og í hvert sinn sem einn hvarf á braut birtist annar. Að hafa þá í Robertson House var svolítið eins og að hafa slæma húð, loksins þegar ein bóla hvarf birtist önnur.

Las ég átta bækur, eina á viku

Fékk ég mér tattú og hring í nefið (eða hvað?)

Við tökum daglest yfir til Chennai á eftir. Fyrst ætlum við að kveðja vini okkar hér í Robertson House, það verður ekki skemmtilegt. Það bíða okkar hins vegar sárabætur í Chennai: harðfiskur og lakkrís.

Myndir af dvöl okkar í Bangalore eru í Bangalore albúminu. Tékkið á því!

Engin ummæli: