miðvikudagur, 7. mars 2007

Margt hefur verið brallað

Nú erum við búin að vera fjóra daga í Chennai. Það vill svo vel að Geiri býr vel fyrir utan borgina í rólegu hverfi við ströndina. Við höfum því haft það náðugt í kyrrðinni og rónni.

Á fyrsta degi okkar röltum við um ströndina og óðum í Bengal flóa. Chennai strandlengjan er víst næstlengsta strandlengja heims, hugsa sér. Þegar við áðum á litlum veitingastað og fengum okkur hressingu hittum við hálf Íslendinginn Andra, hugsa sér. Pabbi hans er Íslendingur, mamma hans Indverji og systkini hans níu búa bæði hér og heima. Sjálfur er hann á leiðinni til Íslands til að vinna yfir sumarið. Við sáum líka bleika Indverja, fiskimenn að störfum og spjölluðum við lágvaxna Nepali.

Bleikur Fiskveiðar úr Bengal flóa

Daginn eftir heimsóttum við Ayadar garðinn. Hann er á landareign Guðspekifélagsins þar sem það hefur alþjóðlega bækistöð sína. Í þessum garði er víst næststærsta banyan tré heims og eiga þrjú þúsund manns að geta setið í skugga þess. Þá er þarna græðlingur af trénu sem Buddha sat undir og hugleiddi á sínum yngri árum. Svo sáum við sérkennileg skordýr, búkurinn var rauður með svörtum tíglum og rauðum fótum. Við smökkuðum líka tamarín sem er súrbeiskt aldin sem bragðlaukar mínir gátu ekki skilið.

Hvað er nú þetta? Við banyan tré

Í gær kíktum við til Mamallapuram sem er lítið sjávarþorp þekkt fyrir útskorna steina, hof og aðra höggmyndalist. Þar sátum við í skugganum af risateininum Krishna’s Butter Ball, fóðruðum geitur á eplahýði, fylgdumst með steinhöggvurum við iðju sína og skoðuðum hofið á ströndinni. Ég varð ástfangin af Ganesh, skorinn út í rauðan marmara, og keypti hann eftir prútt og þref.

Betlihjón Krafta-Geiri

Í dag, með ómetanlegri hjálp frá Geira, náðum við að setja töskuna okkar í póst. Það var alltaf á döfinni að senda tösku með öllum aukafatnaði og aukabókum heim frá Bangalore, en sögurnar sem við heyrðum frá öðrum um hve vonlaust það væri fékk okkur til að draga töskuna til Chennai og fá hjálp frá sérfræðingi.

Fyrst urðum við að finna góðan efnisstranga utan um hana, því næst að hafa upp á einhverjum sem gæti saumað strangann utan um töskuna og því næst festa kaup á snæri. Það er ekki allsstaðar sem maður getur fengið íslenskan útgerðarmann til að binda öryggishnúta utan um böggulinn sinn en í Chennai er það hægt.

Á pósthúsinu tókst okkur svo að sannfæra starfsfólk um að það þyrfti ekki að sauma aftur utan um töskuna og við fengum að senda hana af stað. Þá kom sér vel að hafa keypt Ganesh daginn áður, verndara ferðalanga. Ég stakk honum á tryggan stað í töskunni og bað hann að gæta bóka minna.

Á morgun höldum við til Auroville sem er alþjóðlegt þorp í myndun, sunnan við Chennai. Þar á víst hver stokkur og steinn að vera lagður eftir skipulagi. Spennandi að sjá það.

Myndir frá Chennai og Mamallapuram eru komnar á netið: Hér!

Engin ummæli: