mánudagur, 16. apríl 2007

Pósthúsið og Jew Town

Við fórum á pósthúsið hér í Kochi í dag til að senda nokkra pinkla til Evrópu. Það er meira en að segja það að senda bögglapóst í Indlandi því hver böggull þarf að vera saumaður inn í hvítt lín.

Til þess að koma því í kring heimsóttum við fyrsta klæðskerann sem við fundum. Þau voru reyndar tvö sem stóðu undir skilgreiningunni klæðskeri, hann mældi út línið og hún saumaði það utan um pinklana. Á meðan á þessu stóð dunduðum við okkur við að fylgjast með þorpslífinu. Sérstaklega skemmtilegt fannst okkur að sjá þegar rækjusölukonan mætti á svæðið og kisa litla fór að hnusa út í loftið.

Þegar pinklarnir voru komnir í póst fórum við í labbitúr um Fort Cochin. Við skoðuðum Hollensku höllina og gengum um Gyðingabæ (Jew Town). Sínagógan var reyndar lokuð þegar okkur bar að garði en það gerði ekkert til því við hlið hennar var bókabúð sem lofaði góðu. Búðarferð sú endaði svo á því að við urðum að senda enn einn böggulinn af stað til Evrópu, að þessu sinni í sérstökum bókapósti.

Engin ummæli: