mánudagur, 23. apríl 2007

Sólúrin og höll vindanna

Enn á ný hættu moldvörpurnar sér út af hótelinu góða og inn í bleiku borgina, að þessu sinni til að virða fyrir okkur undur stjörnuskoðunar og höll vindanna. Hljómar rosalega fyrir moldvörpur, sérstaklega ef önnur þeirra er með smámagakveisu (engar áhyggjur).

Jantar Mantar heitir stjörnuskoðunarstöðin og þýðir nafnið bókstaflega mæli tæki. Stöðin, sem er frá miðöldum, þótti mér stórmerkileg og kennir þar ótrúlegustu grasa m.a. sólúrs sem mælir tímann með tveggja sekúndna nákvæmni! Þarna gátu menn líka reiknað og teiknað himingeiminn fram og til baka, spáð fyrir um veður ég veit ekki hvað og hvað.

Á leiðinni heim í moldvörpuholuna litum við afar stuttlega á höll vindanna (Hawa Mahal) en þaðan gátu hefðarkonur horft hersýningar og hátíðarhöld án þess að verða fyrir lostafullu augnaráði karla. Þessi svokallaða vernd kallast Purda. Allir gluggar eru þannig gerðir að hægt er að horfa út en ekki inn.

Engin ummæli: