fimmtudagur, 28. júní 2007

Ha Long flóaferð

Meginástæða veru okkar í Halong borg er flóinn sem hún stendur við og sigling um hann. Í morgun héldum við til hafnar til að finna bát með áhöfn sem væri tilbúin til að sýna okkur flóann á viðráðanlegu verði. Leiðbeiningar ferðahandbókarinnar voru frekar slappar og ef við hefðum fylgt þeim hefðum við endað með að greiða u.þ.b. $28 fyrir fjögurra tíma siglingu.

Með okkar alkunnu ráðvendni og útsjónarsemi enduðum við á því að fá sama túr fyrir rúma $5. Fleyið var tveggja hæða og festum við okkur sæti með góðu útsýni við skipstjórnarhúsið. Siglt var á milli skógivaxinna eyja, dranga og kletta sem sumir báru skemmtileg nöfn eins og Hundurinn og Kyssandi kjúklingarnir.

Halong flói þýðir á íslensku Drekaflói (bókstaflega: Þar sem drekinn heldur til hafs) og segir sagan að dreki hafi mótað þetta merkilega landslag á leið sinni út flóann. Þar sem nú á dögum er ekki mikið um skúlptúrasýningar dreka er flóinn allur á heimsminjaskrá UNESCO.

Á ferðinni heimsóttum við lítið, fljótandi fiskimannaþorp og skoðuðum tvo risastóra hella. Hellarnir heita Tien Cung og Dau Go sem ég hef ekki hugmynd um hvað þýðir en ætla að kalla þá Mörgæsahelli og Höfrungahelli þar sem ruslatunnurnar voru eftirmyndir þessara ágætu dýra.

Til marks um hve þægilegt lífið er þessa dagana þá var okkar stærsta deiluefni á siglingunni hvort sjórinn í kring væri sægrænn (Ásdís) eða Nílargrænn (ég). Auðvitað var hann sægrænn, grænn sjór, en ekki eins og sjórinn heima. Á palettuspjöldum í málningabúðum heitir þessi litur Nílargrænn.

Eftir að hafa tekið deilumálið mikla af dagskrá fundum við okkur nýtt tómstundagaman og var það að njósna um víetnamskt kærustupar sem var með okkur á bátnum. Þau báðu nú reyndar um athygli, svona lítil og sæt með kúrekahattana sína.

En hvað er ég að blaðra, myndir segja oft meira en orð og gef ég sýnishorn hér en að sjálfsögðu er hellingur í viðbót á myndasíðunni!

Engin ummæli: