föstudagur, 1. júní 2007

Indland í baksýnisspeglinum

Bráðum verður Indlandi ekki lengur allt umlykjandi í okkar lífi þar sem við höldum fljótlega héðan eftir tæpt sex mánaða ferðalag um þetta ótrúlega land andstæðna. Við erum búin að gera upp dvölina í hjartanu og þetta er afraksturinn af því þegar við litum um öxl.

Svipmyndir: Beljur á götunum rótandi í ruslinu, fáránlega háværar bílflautur, kæfandi mengun, apar á grindverkum og upp á rafmagnssnúrum, rafmagnsleysi daglega (m.a. út af öpum á rafmangssnúrunum), mannmergð, litadýrð, Bollywood tónlist í strætó, karlmenn sem leiðast, betlandi börn, götusalar að selja blóm í hárið eða djúpsteiktar bollur með grátsterkri chilisósu, glansandi glerbyggingar og heimili úr pappakössum, horaðir hundar, saríar og dothis, rauðir tikka punktar á enninu, hringlandi ökklabönd, síðar, svartar hárfléttur og glansandi af kókosolíu, yfirvaraskegg á öllum (!), svalt loft og þrúgandi raki, skærgrænn gróður og rauðir vegir, dökkgræn grenitré og snæviþaktir tindar, Sikkar á fínum jeppum og sveitafólkið í fjöllunum með sjálfsþurftarbúskapinn sinn. Við þessar myndir þarf að skeyta lyktinni og hávaðanum.

Mælum með: Kochi, kerölskum morgunverði, Auroville og Farm Fresh bakaríinu þar, masala dosa, Kumily, útilegu á kettu vallam í Kerala, Hampi, falafeli og hummus í pítubrauði, Mysore, kókoshnetuvatni, McLeod Ganj, mangó, samósum, papaya, ostanaani eða butternaani, litlum kvikmyndahúsum í afskekktum fjallaþorpum, indverskri tónlist, jóga á ströndinni, troðast í biðröðum og njóta þess, bókabúðum og bókakaupum og bókalestri, tíbetsku brauði með hnetusmjöri, höfrungaskoðun í Palolem, ayurvedíska magalyfinu Pudin Hara, avókadó- eða mangólassa.

Mælum ekki með: Rajasthan í aprílmánuði. Ekki heldur Delhi-Agra hringurinn í apríl. Eða versla við Kashmírbúa. Indverskar rútur eru ekki sniðugar. Indversk umferðamenning er heldur ekki hátt skrifið. Indverskar bílflautur er á Fólk er fífl listanum okkar. Ekki standa nálægt umferðalöggu með blístru. Ekki vingast við Nepali sem þú ætlar að stunda viðskipti við, nema þú sért þeim mun harðari í viðskiptum. Ekki nota sterkt DEET spray, notaðu frekar Citronellu eða Odomos, þannig forðastu útbrotin.

Góðir ferðamátar: Mælum sérlega með næturlestum og lestum Indlands yfir höfuð. 2 tier eða 3 tier A/C er besti kostur vilji maður tryggja sér svefn. Mælum með rútuferð frá Kumily til Alappuzha, umhverfið frábært, stemmningin yndisleg og svo eru varnarorð til ökumanna svo skemmtileg á leiðinni. Local ferjur eru skemmtilegur ferðamáti. Einkabílstjóri á loftkældum bíl er viturlegasti valkosturinn í stórborgunum. Flug með lággjaldaflugfélögunum er ódýr og fljótleg leið til að koma sér milli suðurskagans og norðurhjarans. Mótorhjól í sveitabyggðum er allra skemmtilegasti ferðamátinn.

Viljum ekki gleyma: Appelsínur eru grænar hér á landi. Við vorum farin að tala um að eitthvað væri appelsínugrænt, sérlega viðeigandi. Indverjar þykjast alltaf vita hvað maður vill og hvert maður er að fara. Svo hjálplegir að það hálfa væri nóg. Hér á bæ notast menn við gömul en sterkbyggð hjól til að ferja heilu klasana af grænum kókoshnetum. Að sama skapi ferja þeir stóra plastbrúsa á hjólum og selja þá vatnsberum.

Indland er land andstæðna. Á einu augnabliki getur maður fundið lykt af jasmínum og reykelsi og á því næsta kúgast maður af klóakkstybbunni. Niðurföllin eru oftar en ekki hinu megin í baðherberginu, sem lengst frá sturtunni. Á veitingastöðum fyrir norðan skrifar maður sjálfur pöntunina niður á blað.

Í Mamallapuram geymdi ég hýðið af eplinu mínu til að gefa það ráfandi geitum og öpum. Hins vegar kom lítill strákur til mín og bað um pokann og varð hæstánægður þegar honum var afhentur hann. Í Auroville fann ég Þakklætissteinninn minn. Við komumst aldrei á Bollywood mynd í Indlandi þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Gengur betur næst.

Hindí orðin sem við kunnum: namaste/namaskar (kveðja), pani (vatn), neinei (alls ekki), chello (farðu), bass (hættu/stopp), gobi (kartafla), palak (spínat).

Maður er búinn að vera lengi í Indlandi þegar: maður vaggar hausnum í hverri setningu og talar með höndunum; maður talar vísvitandi málfræðilega ranga ensku; eyrun á manni hætta að nema köll sölumanna; maður getur sent betlihópa í burtu án þess að það trufli samtalið sem maður heldur uppi; maður hlær upp í opið geðið á gráðugum ricksaw bílstjórum; manni finnst nútímaþægindi eins og þvottavélar ósjálfsögð; manni finnst betra að fá sér chai en kaffi, maður fílar betur að borða með höndum en skeið; ná að fara yfir bílagötu þrátt fyrir að engin glufa sé í umferðinni.

Maður er búinn að vera lengi á sama stað þegar: bókabúðin er farin að veita manni magnafslátt; maður er farinn að skiptast á tónlist við strákana á netkaffihúsunum; maður fær að hringja frítt innanbæjar því maður er svo góður viðskiptavinur; maður er farinn að lesa yfir formleg bréf kunningja og leiðrétta stafsetninguna; maður er farinn að hugga syrgjandi vini; þjóninn veit hvað maður ætlar að panta áður en maður veit það sjálfur. En þá er maður kannski líka búinn að vera of lengi á sama stað :o)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta var sannarlega fróðlegur pistill fyrir heimalning, sem ekkert þekkir nema gömlu Evrópu, og svo eitthvað af BNA. Góða ferð til Nepal.
Kær kveðja
Pétur afi

baldur sagði...

Ritstjórn heimasiðunnar þykir síðunni sómi sýndur þegar veraldarvanasti heimalningur sögunnar leggur orð í belg.

Hjartans þakkir fyrir ferðakveðju, við lofum að fara varlega.