þriðjudagur, 19. júní 2007

Megabíó á degi konungsins

Mánudagar eru konungsdagar í Tælandi og hylla allir kónginn með því að klæðast gulri skyrtu, stutterma- eða pólóbolum. Ég hafði verið að pæla í því hvað málið væri eiginlega þegar gestir eins veitingastaðar nokkurs voru nánast allir í eins fötum. Hélt þetta væru kannski vinnufélagar að fá sér bita eftir vinnu en þá voru þetta bara þegnar sama konungsins.

Á þessum ágæta konungsdegi skelltum við okkur í bíó, ásamt félögum okkar Bryan og Diane, og sáum Oceans 13. Það var mjög svo viðeigandi að velja þennan dag því fyrir hverja bíósýningu í Tælandi er þjóðsöngurinn spilaður og allir standa upp. Laginu fylgir heljarinnar myndband með fallegum landslögum og hamingjusömum Tælendingum.

Tælendingar viðhalda þeim góða sið að hafa númeruð sæti í kvikmyndahúsum og velur maður sætin einfaldlega af tölvuskjá í afgreiðslunni. Á leið til salarins eru einkennisklæddir starfsmenn sem allir heilsa með hinu vinalega sabadí og vísa manni veginn að snyrtilegum sal og merktum sætum.

Ég mæli eindregið með tælenskum kvikmyndahúsum og óska þess að Íslendingar taki þá sér til fyrirmyndar í þessum málum. Við fengum nefnilega að horfa á alla myndina, hverja einustu sekúndu, því það var ekkert hlé og aðstaða öll eins og best er á kosið. Það eina sem mætti setja út á var miskunnarlaus kuldinn, loftkælingin var alveg ofvirk og var ég feginn að fá að kúra mig undir pasmínunni hennar Ásdísar.

Engin ummæli: