föstudagur, 24. ágúst 2007

Tveggja turna tal

Malasía, og þá sér í lagi Kuala Lumpur, er þekkt fyrir verkfræðilegt undur og arkitektúrafurður: Petronas turnana. Þeir eru 88 hæða háir og voru fram til ársins 2004 hæstu turnar heims eða þangað til Taipei 101 hrifsaði þann titil til sín. Í dag eru Petronas turnarnir hæstu tvíburaturnar heims.

Okkur Baldri fannst við ekki geta kvatt borgina án þess að heimsækja þá og gerðum heiðarlega tilraun til þess í gær. Þá fengum við þær upplýsingar að á hverjum morgni, í bítið, er 1.600 fyrstu gestunum gefið leyfi til að fara upp á Himnabryggjuna sem er milli 43. og 44. hæðar. Til þess að verða sér úti um slíkt leyfi þarf maður að mæta snemma og bíða í röð og yfirleitt eru öll leyfin búin fyrir hádegi. Vá, talandi um áhuga á einni byggingu, hugsuðum við með okkur.

Við ákváðum að vera snemma í því daginn eftir, þ.e. í dag, og vorum mætt fyrir átta að turnunum þar sem við bættumst í langa biðröð. Fyrir tíu vorum við komin með tvo miða í hendurnar sem heimiluðu okkur 15 mínútna heimsókn kl. 12:50.

Heimsóknin í Petronas turnana hófst á stuttri heimildarmynd um turnana. Gestum var úthlutaður gestapassi og þrívíddargleraugu til að horfa á heimildarmyndina. Ég sat í myrkrinu og velti því fyrir mér af hverju fólk væri að leggja á sig að framleiða þrívíddarmyndir þegar augu okkar ná aldrei almennilegum fókus á myndina. Plúsinn við þrívíddarmyndina var að sitja með þessu skrípagleraugu á nefinu og sjá alla virðulegu gestina prýða andlit sitt með þeim.

Til að komast upp á Himnabrúnna urðum við að skilja vatnsflöskuna okkar eftir niðri, láta gegnumlýsa töskuna og fara í gengum vopnaleit. Lyftan þaut síðan með okkur upp 43 hæðir eins og hendi væri veifað og þaðan gátum við séð garðinn fyrir neðan og nánustu háhýsi. Þar sem það rigndi meðan við vorum uppi var útsýnið ekki upp á sitt besta en við fengum að sjá regndropa á gleri í staðinn.

Þar sem við förum í þriggja daga ferð í þjóðgarðinn Taman Negara á morgun eyddum við seinniparti dagsins í undirbúning. Fyrir það fyrsta varð ég mér úti um nýjustu bók Khaleid Husseinis, A Thousand Splendid Suns, en þar sem ég sé ekki fram á að lesa mikið í frumskóginum telst hún ekki með (ég var bara að monta mig).

Nei, alvöru undirbúningurinn fólst í skóveiðum sem við fórum á í Kínahverfinu í kvöld. Til að tryggja að ég verði ekki fyrir árásum blóðsuga, og til að verja síminnkandi sárið, keypti ég gervi Nike strigaskó og hló eins og vitleysingur á meðan kaupin fóru fram. Í mínum huga var svo súrrealískt að kaupa sér falsaða merkjavöru til að nota einn dag í frumskóginum. Pabbi gerði gott um betur og keypti sér síðerma bol til að verjast muggunum, nema hvað hans var gervi Dolce & Gabbana. Við eigum eftir að vera flottasta fólkið í frumskóginum!

Engin ummæli: