laugardagur, 22. ágúst 2009

Ísafjörður-Viðey á einum degi

Við lögðum upp í síðbúna útilegu vestur á firði fyrir nokkrum dögum og lentum í því allra versta sumarveðri sem um getur, eða 1°C hita, hagléli/slyddu/beljandi vatnsflaumi og æðandi og óðum vestfirskum kára. Ég er að gleyma aðalatriðinu: við vorum í tjaldi allan tímann.

Við vorum komin til að tína bláber. Alla þessa leið komum við til að endurupplifa fallega sumarfríið sem við áttum á Vestfjörðunum 2008, þegar við heimsóttum Flatey, Tálknafjörð og Bíldudal, Korpudal og Ísafjörð, náttúrulaugar, Dynjanda og Tjöruhúsið. Og tíndum bláber eins og við fengjum borgað fyrir það. Keyptum berjatínur í kaupfélaginu á Ísafirði og fötur í bílasjoppu sem auglýsti þær til sölu á tilkynnigartöflunni hjá Bónus. Og nú vorum við mætt með téðar tínur og téðar fötur. En komust svo hvorki lönd né strönd því ekki tínir maður ber í óveðri og stormi, lítil rómantík yfir því. Það varð þó til þess að við skoðuðum okkur þeim mun betur í miðbænum og duttum niður á berjagrindur sem notast má við til að flokka berin og tína frá sprek og annað rusl.

Eftir nokkra daga af því að sæta færis í berjatínslunni en verða að láta sér lynda að fara í sundlaugina á Suðureyri eða Flateyri í staðinn vorum við orðin vonlítil. Í ofanálag var uppi sú hugmynd að taka jafnvel þátt í Viðeyjarsundinu sem fram fór á föstudeginn 21. ágúst. Að morgni þess dags vöknuðum við eftir enn eina brjálaða nótt í tjaldinu, illa sofin og pirruð. Sáum þá að það var að stytta upp svo við rifum niður blautt og aurugt tjaldið og brunuðum inn í næsta fjörð til að fylla fötur af berjum. Það er skemmst frá því að segja að okkur tókst að tína 20 lítra á rúmum klukkutíma. Svo þustum við í bæinn, fórum öll shortcut sem við fundum og hringdum meira að segja í Upplýsingamiðstöð ferðamanna á Ísafirði til að fá staðfest að við kæmumst Þorskafjarðarheiði á bílnum okkar þrátt fyrir vatnsflauminn sem ætt hafði yfir landið á undangengnum dögum. Ég ætla ekki að hafa hátt um hvernig við fórum að því en á mettíma náðum við niður á Sundahöfn áður en hópsundið út í Viðey hófst, og meira að segja með viðkomu heima til að afferma bílinn og snara okkur í sundföt.

Sjálft Viðeyjarsundið var svo geggjuð upplifun. Að standa í 300 manna hópi og ætla sér að synda út í Viðey í köldum og úfnum sjó er meira en að segja það, í það minnsta kallaði það fram fiðrildi í maga í stórum stíl hjá mér. Það bætti ekki úr skák að hugsa til þess að samsundmenn mínir (Baldur, Stella, Kristján og Jói) voru öll á sínum tíma keppnisfólk í sundi. Fiðrildin voru hins vegar fljót að láta sig hverfa þegar ég var komin út í sjó (of kalt kannski fyrir svona viðkvæmar verur) og áður en ég vissi af var maður að verða kominn á leiðarenda. Ég var hins vegar ansi þrekuð eftir sundið og það voru margir. Baldur hafði gleymt að taka með sér föt til að fara í eftir sundið og því varð Kristján að deila því sem hann hafði komið með til að halda lífinu í Baldri. Við skulfum öll af kulda í bátnum á leiðinni til baka og brunuðum beinustu leið í Laugardalslaug þar sem við möruðum í hálfu kafi í heitu pottunum.

Engin ummæli: