miðvikudagur, 9. maí 2012
Grænmetissúpa og pestó
Þegar við Baldur vorum í heimsókn hjá mömmu og Sigga í Skövde í febrúar var fimbulkuldi út og við urðum bara að fá okkur almennilega súpu! Með heimagerðu pestói auðvitað. Eftir viðburðaríka verslunarferð í ICA vorum við mamma enga stund að henda í þessa líka fínu súpu. Mamma sá hins vegar alfarið um pestóið og ég fékk bara uppskriftina til að deila.
Súpan:
2 laukar
2 hvítlauksrif
2 meðalstórar gulrætur
2 stórar kartöflur
2 sellerístönglar
ólívuolía til steikingar
1 1/2 lítra af soði (að eigin vali)
2 msk tómatkraftur
3 lárviðarlauf (má sleppa)
Laukurinn saxaður og steiktur í olíunni í góðum potti, hvítlaukurinn kreistur út á. Niðurskornu grænmetinu bætt útí og steikt létt í olíunni í stutta stund. Soðinu bætt við og súpan soðin í 15-20 mín. Til að flýta fyrir má sleppa því að steikja grænmetið í olíunni og í staðinn bara henda því beint í soðið, kemur ekki niður á bragðinu.
Pestó:
1 búnt af ferskri basilíku (og jafnvel meira)
2-3 hvítlauksrif
50 gr parmesan ostur
1 dl ólívuolíu
1/2 tsk salt
Basilíka, hvítlaukur og parmesan sett í matvinnsluvél, gott að skera hvítlaukinn til helminga áður. Maukið og bætið salti og olíunni saman við í smáum skömmtum. Hrærið þar til sósan er létt og mjúk.
Herlegheitin er síðan gott að bera fram með nýbakaðri baguette.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli