fimmtudagur, 10. maí 2012
Kvöldgöngur
Þessa vikuna hef ég verið að fara í ljúfar kvöldgöngur í staðinn fyrir göngutúrinn sem ég fer yfirleitt fyrir vinnu eða strax eftir vinnu. Þannig hef ég fengið alveg nýja upplifun af eyjunni, náttúrunni og birtunni. Ljósmyndarar kalla tímann í kringum sólarupprás og sólsetur the golden hour. Ég hef fram til þessa aldrei gert mér far um að mynda á þessari gullnu stund en ég gerði það um daginn og það var sannarlega þess virði. Það eru alveg sérstakir eiginleikar í loftinu á þessum tíma dags og þessum tíma árs: sólin fer seint í háttinn, fuglarnir kvaka lengur, krakkarnir eru enn úti að leika og fullorðna fólkið stendur í vortiltekt á lóðum út um alla eyju. Og það er ástæða fyrir nafngiftinni gullni tíminn, allt er baðað í lágum geislum sólar sem þvera andrúmsloftið frá öðru og betra sjónarhorni með mjög svo upplyftandi árangri.
Við Baldur fórum saman í göngutúr á mánudaginn og hittum ábyggilega sex ketti sem allir nema einn vildu heilsa upp á okkur. Nú vil ég ekki gefa mig út fyrir að vera brjáluð kattakona en þessir fundir við kettina kalla á sér myndafærslu á næstu dögum.
Í gær fór ég í göngu með Önju nágrannakonu okkar. Við gengum út í Vassvika til að horfa upp í fjallið og fylgja lundunum eftir með augunum. Sólin skein á okkur úr vesturátt og aldrei þessu vant var algjört logn. Við gátum heyrt hlátrasköll úr samkomuhúsinu handan við íþróttavöllinn en sáum ekkert nema ströndina sem við stóðum á. Þessa dagana gengur allt út á skoledugnad hér í Noregi, þá kemur fólk saman til að flikka upp á skóla og samveruhús - málar, tínir til, gengur frá, hendir - og það var einmitt í gangi í samkomuhúsinu í Vassvika.
Ég lærði nokkur orð í norsku í þessum göngutúr, eins og fregner (freknur), dugnad (sjálfboðastarf), sauer (sauðfé) og söguna á bak við 17. maí, þjóðahátíðardag Norðmanna sem er í næstu viku. Lærði líka fleirtölumyndina af gæs, gås í et. og gjess í flt.
Í morgun fann ég síðan kunnulega og alveg einstaka lykt í loftinu sem ég hef fundið oft áður á Íslandi á þessum árstíma. Þetta er lyktin af vori sem er að umbreytast í sumar. Lykt af dafnandi lyngi, sjávarseltu og hækkandi hita.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli