laugardagur, 18. ágúst 2012

Hofsós og heim

Seinasti dagur tjaldútilegunnar rann upp í gær og fór í að taka saman föggur sínar og sigla suður á braut. Við rifum okkur upp eldsnemma því dagskráin var þéttskipuð: safnaferð, sundferð og berjamór ofan á það að keyra þessa ófáu kílómetra í bæinn.

Eftir smá brölt með að pakka saman lánstjaldinu sem er af pop up gerðinni höfðum við náð að smala saman dótinu okkar í skottið og gátum þar með hvatt Hrafnagil og umhverfi og þakkað fyrir okkur. Nestuðum okkur upp í bakaríi á leið út úr bænum en geymdum að kaupa kókómjólkina, ætluðum að gera það á Hofsósi og fá hana þá ískalda beint úr kælinum.

Mér finnst þreytandi að keyra Öxnadalsheiði og til að létta okkur stundir tók ég upp Gamlingjann sem Baldur hefur verið að lesa fyrir mig í litum skömmtum undanfarna mánuði og las upphátt á meðan Baldur brunaði með okkur suður eftir. Þessi tilraun gekk svo vel að undir lok ferðarinnar vorum við rúmum hundrað blaðsíðum ríkari og farin að nálgast það að klára bókina.

Fyrsta stopp var á Hofsósi þar sem við heimsóttum Vesturfarasetrið. Ég skemmti mér konunglega við að skoða gamlar úrklippur úr dagblöðum sem tengdust Vesturferðum Íslendinga. Hér koma nokkur skemmtileg sýnisdæmi sem ég páraði hjá mér eins og þetta koma af skepnunni með stafsetningarvillum og öllu:

VESTURFARAR
Lesið.
Enginn getur selt jafn góð og ódýr kófort. Hvergi er hægt að fá eins ódýran og góðann skófatnað ef keypt er fyrir 50-100 kr. og pantað er nógu snemma, eins og hjá Jakob Gíslasyni á Akureyri.

Bréf frá Ameríku komu með austanpósti um daginn. Íslendingar þar láta almennt vel af hag sínum.
Hafíshroði hefir nýlega sézt fyrir utan Eyjafjörð.

KENNSLA Í Ensku.
Þeir sem vilja læra þetta mál bæði fljótt og vel, einkanlega Ameríkufarar, geta fengið tilsögn hjá Þorláki Ó. Johnson, sem hefir verið á Englandi í mörg ár, og í Lundúnaborg um langan tíma, þar sem Enska er almennt bezt töluð. Reykjavík 21. september 1876.

Þarna var líka að finna níðkvæði um Ísland eftir Matthías Jochumson sem eflaust hefur lagst illa í suma, því skáldinu hefur verið heitt í hamsi og lýsir í rími og stuðlum því ástandi sem var valdurinn að flutningum fólks yfir haf.

Eftir safnið og áður en við fórum í sund vildum við kíkja í kaupfélagið til að verða okkur úti um áðurnefnda kókómjólk. Við ætluðum aldrei að hafa upp á kaupfélaginu og þegar við loksins fundum það hafðist félagið við í húsnæði sem helst minnti á hjólbarðaverkstæði eða slökkviliðsstöð svo það var engin furða að maður átti í erfiðleikum með að finna búðina. Það kom síðan í ljós þegar við spjölluðum við starfsfólkið að gamla búðin brann til grunna í fyrra og verið er að reisa nýja og betri. Svo næst þegar maður heimsækir Hofsós og fær sér kókómjólk er allt eins víst að það verði gert í nýrri og fínni verslun.

Næst héldum við í hina rómuðu sundlaug bæjarins og tókum nokkur sundtök og fannst eins og við myndum synda fram af sjóndeildarhringnum. Það gerðist hins vegar ekki heldur fórum við bara í pott og sögðum það svo gott af sundferð.

Brunuðum síðan heim á leið og fórum ekki hefðbundnustu leiðina heldur enduðum á Sauðárkróki. Læt alveg liggja á milli hluta hvort það hafi verið með vilja gert eður ei. Þar rákumst við á mynd af skemmtilegri rækju við rækjuvinnslu niðri á höfn og heimspekina: Ceci n'ect pas une crevette í anda René Magritte og pípunnar hans.

Frá Sauðárkróki þveruðum við skagann sem teygir sig til sjávar á milli Sauðárkróks og Blönduósar og sem ég virðist hvergi geta fundið neitt nafn á. Ef einhver lesandi veit hvað þessi skagi heitir og kallast í daglegu tali væri ég afskaplega þakklát þeim hinum sama að deila viskunni með mér. Nenni allavega ekki lengur að liggja yfir gömlu kortunum hans pabba.

Einhversstaðar þarna mitt á skaganum eða heiðinni eða hvar við vorum stödd, stukkum við út í berjamó. Náðum í nýju fínu tínurnar okkar og tíndum í góðan dall. Þarna ægði öllum sortum saman: bláberjum, aðalbláberju, krækiberjum og svo aðalberjum, sem eru víst berin sem Norðlendingar vilja einna helst fá upp í sig og ofan í dalla. Við létum að vísu krækiberin eiga sig en tíndum annars allt í bland af hinum sortunum og uppskárum fallega litasinfóníu og skemmtilega blöndu áferða því aðalberin eru glansandi á meðan bláberin eru mött og búttuð.

 Við hefðum vel getað unað okkur lengur í berjamó enda logn þarna í brekkunni sem við völdum okkur og sólskin í lynginu en við erum bissí fólk með plön á laugardögum og urðum því að rífa okkur laus úr kræklóttu lynginu og halda heim á leið.

Yndislegt dvöl fyrir norðan í besta mögulega veðri - tékk!


Hofsós
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled
 
Sundlaugin á Hofsós
 
Þetta er ekki rækja
 
Með nýju berjatínuna
 
Berjalyngið
 
Berin úr móanum
 
Gúffar þeim í sig
 
Untitled
 
Nokkrar vænar lúkur
 
Bláberin

1 ummæli:

Augabragð sagði...

Mig hefur lengi langað í sund á Hofsósi - eða þ.e.a.s. síðan í sumar þegar á sá mynd af sundlauginni ;) Virkilega falleg staðsetning og útsýni.

Og NAMM, ber!