mánudagur, 13. ágúst 2012

Hrafnagil

Það er ansi ljúft þetta tjaldlíf okkar hér í Hrafnagili. Vöknum á morgnana og skríðum út úr tjaldinu og erum stödd mitt í paradís norðlensku fjallana og fegurð þeirra. Það er alltaf svo tilkomumikið þegar tindar skarta hvítum toppum. Tvo síðustu daga hef ég farið í kraftgöngu aðeins upp eftir Eyjafirðinum og fengið að njóta ekki aðeins landslagsins heldur veðurblíðunnar góðu. Þvílíkt sem það á við mig að vera í fríi, maður lifandi!

Á sunnudögum er haldinn sveitamarkaður hér í Hrafnagili. Við kíktum síðast þegar við áttum leið hér um sumarið 2010 þegar við fórum hringinn sællra minninga. Þótt lítill í sniðum þótti okkur mikið til hans koma og keyptum í þeirri ferð tómat-eplasultu og sítrónusmjör ef ég man þetta rétt. Rétt eins og þá fengum við eðalveður og úr hátölurum ómuðu íslenskar sveitaperlur. Magnað hvað tónlist er þess megnug að skapa andrúm og stemmningu.

Að þessu sinni keypti Baldur sér broddmjólk og ábrystir með kanil. Ég er reyndar alveg viss um að hann gerði slíkt hið sama síðast líka. Ég hins vegar fékk mér límónaði úr nýkreistum sítrónum borið fram í glerflösku og brakandi ferskt poppkorn með. Svolítið eins og ég væri á leið í sirkusinn á þriðja áratug síðustu aldar og væri að velta fyrir mér hvort fílar væru virkilega eins stórir og heyrst hafði.

Við borðið hjá okkur settust hjón með sitthvora rjómavöffluna og við tókum að rabba. Reyndust þau vera hrossabændur með hesta austan við Selfoss. Við ræddum um hross og Framsókn (!) og Noreg og Ungverjaland og Indland og Sígauna og jóga. Þetta var svolítið eins og að hitta frænku og frænda sem maður hittir sjaldan því við sögðum þeim frá okkar högum og þau frá sínum, allt uppi á borðum sem er mjög íslenskt leyfi ég mér að segja.

Frá sveitamarkaðnum röltum við yfir á Landbúnaðar- og handverkssýninguna sem var svo að segja í næsta húsi við. Þar byrjuðum við á því að heilsa upp á kálfa og kið. Fyrr um daginn höfðum við horft á krakka af bæjunum í kring sýna kálfa sem þau höfðu vanið við taum og beisli. Sumir kálfarnir voru tregir í taumi á meðan aðrið ólmuðust. Krakkarnir báru sig hins vegar allir mjög fagmannlega að þessu og mörg þeirra voru klædd í samfesting að hætti kúabónda. Yngsti þátttakandinn var þriggja ára og var því lágvaxnari en kálfurinn sem hún var að sýna. Alveg dásamlega fyndið að fylgjast með því.

Á landbúnaðarsýningunni heilsuðum við einnig upp á hrút og ær og hesta. Hestarnir fengu meira að segja arfa sem þeir voru arfavitlausir í. Innandyra var síðan að finna sýningar hönnuða héðan og þaðan af landinu. Það sem vakti kannski mesta forvitni okkar var handverk konu frá Þingeyri sem tekur vestfirskt klóþang, þurrkar það og pússar og slípar og hengir svo í festar um háls. Blöðrurnar verða harðar og léttar og henta því vel til skrautsins. Þetta kallar hún fjöruperlur. Síðan var þarna handverk Sveinbjargar sem einmitt er til sölu inn á Akureyri og ég hafði tekið eftir. Langar alveg rosalega í ullarteppið úr hennar smiðju. Að lokum rak okkur að skemmtilegum bás með afmæliskortum og gjafapappír, allt svo fallega skreytt með teikningum tveggja teiknara. Þær kalla sig hnossdesign og ég ætla að fylgjast með þeim í framtíðinni.

Við enduðum þennan ljúfa dag á því að fara í sundlaugina í Hrafnagili þar sem við hittum einmitt kúabændur með býli austan við Selfoss. Bara eins og allir bændur austan við Selfoss hafið tekið sér frí þessa helgi! Fórum eftir það út að borða á veitingastaðnum Silva sem er aðeins 2 km austan við gilið. Þar er boðið upp á grænmetis- og hráfæði og alls konar fínerí. Ég fékk mér súpu dagsins sem var gómsæt og vel krydduð af skessujurt. Sátum svo og horfðum yfir falleg túnin og út á tindana í kring, blátt grænt og hvítt lýsir sumarlandslaginu vel.

Aðrir ólmuðust

Rósir

Sultur

Límonaði

Tómatsulta og jarðarber

Ábrystir

Hrúturinn fær klapp

Deilum þessu nú!

Kýrnar hjá póstinum

Norðlensku fjöllin

1 ummæli:

Augabragð sagði...

Yndislegt :) Við fórum einmitt á sveitamarkaðinn og í sundlaugina í Hrafnagili þegar við vorum í bústaðnum í júlí.