miðvikudagur, 12. september 2012

Veðraskipti

Við höfum undanfarna viku verið að sætta okkur við þá staðreynd að sumarfríinu okkar er lokið. Úff, því fylgir mikil söknuður. Alveg elska sumarfrí. Það er hins vegar svolítið erfitt að fatta að maður sé ekki lengur í sumarfríi það þegar maður þarf ekki að vakna til vinnu á hverjum degi. Er maður þá enn í sumarfríi eða þarf maður að kalla það eitthvað annað?

Síðustu daga höfum við reyndar verið að leggja grunninn að breyttum aðstæðum. Að sjálfsögðu liggur maður yfir atvinnuauglýsingum og sækir um það sem manni hugnast vel og síðan höfum við líka verið að skoða leiguíbúðir.

Í gær dró svo til tíðinda. Baldur varð sér úti um vinnu og um kvöldið fórum við svo og skoðuðum íbúð á Snorrabrautinni. Skondið hvernig þetta gerist á sama deginum. Íbúðin leit ágætlega út, hennar helsti kostur í okkar augum er staðsetningin sem gerir það að verkum að við getum látið gamlan draum rætast: að vera bíllaus á Íslandi. Sem við höfum aldrei áður reynt. Sem er svolítið skrýtið því við erum alltaf að dásama bíllausa tímann okkar í Kaupmannahöfn. Sem minnir mig á hvað Kaupmannahöfn er frábært og fær mig til að sakna hennar, en flækjum nú ekki málin óþarflega.

Við fórum í sund í Vesturbæjarlauginni eftir að hafa skoðað íbúðina. Þurftum svolítið að melta ákvörðunina um leiguíbúðina og heitir pottar eru alveg kjörnir til þess. Það situr svolítið í mér að þegar við höfðum lagt bílnum fyrir framan Snorrabrautina og stigum út varð mér litið á stafrænan skjá stöðumælisins og klukkan blikkaði mig og sagði 20:12. Ég, sem reyni að lesa í stokka og steina, vildi eiginlega meina að stöðumælirinn væri að segja mér að ég ætti að búa hér út árið.

Ætli við séum ekki bara að fara að flytja á Snorrabrautina? Leyfa þessum straumi að tosa sig með sér?

1 ummæli:

Tinnsi sagði...

Frábærar fréttir! Til hamingju með vinnuna og íbúðina!