Ég er búin að vera með nefið ofan í bókinni The Inheritance of Loss eftir Kiran Desai undanfarna daga. Því fylgir mjög svo fyrirsjáanlegt hungur í indverskan mat.
Ég fór og fann glósubækurnar okkar úr Indlandsferðinni 2010-2011 og fletti upp á uppskriftunum sem ég páraði niður þegar við sóttum matreiðslunámskeið í Rishikesh fyrir tveimur árum. Mig langaði nefnilega alveg ferlega í chana masala, sem er kjúklingabaunaréttur, gómsætur mjög.
Í tilefni þess að ég ætlaði að elda indverskt opnuðum við indverska kryddpakkann sem við sendum frá Dharamsala í júní fyrir rúmu ári. Hugsa sér, bara rúmt ár síðan! Mér finnst eins og það hafi verið fyrir ári og öld. Við fórum þá til kryddsalans Harry og konu hans, bæði mjög hrum og virtust ævagömul. En svona ævagömul og eldhress, sem er held ég bara besta kombóið.
Harry heimtaði að ég tæki mér sæti í eina stól pínulitlu búðarinnar á meðan hann afgreiddi pöntun okkar. Afgreiðslan fór þannig fram: Baldur bar upp enska heitið á kryddinu sem var á listanum okkar, Harry tók þá fram lista með heiti helstu krydda þýdd yfir á þrjú tungumál (ensku, hindi og tíbetsku) og í sameiningu fundu þeir umrætt krydd. Þá kinkaði Harry kolli og hripaði hjá sér á hindi heiti kryddsins. Þess ber að geta að listinn var langur, enda Indland land kryddanna ef eitthvað.
Svo kom Harry mér á óvart með því að stilla sér upp á mynd með mér og taka þétt utan um mig. Það kom svolítið á mig, en sést það nokkuð á myndinni?
En vindum okkur í uppskriftina áður en ég fer að plana fleiri ferðir til Indlands! Hér er allt eins og okkur var kennt af meistaranum í Rishikesh, nema hvað ég dró aðeins úr olíunni, nóg er nú samt.
Hvað:
80 g olía
1 tsk broddkúmenfræ (cuminfræ)
3 rauðlaukar (smátt skornir)
2 tsk rifið engifer
1 tsk rifinn hvítlaukur
1 tsk túrmerik
1 tsk salt
1 1/2 tsk chhole ka masala (chana masala krydd)*
5 ferskir tómatar (hakkaðir í blandara)
200 ml vatn
500 g soðnar kjúklingabaunir
1/2 tsk garam masala
ferskt kóríander
Hvernig:
Hitið olíu á pönnu og þegar olían er heit bætið út í hana kúmenfræjum, rauðlauk, engifer og hvítlauk. Hitið við vægan hita og hrærið í af og til. Þegar þessi krydd- og laukblanda er orðin vel brún (tekur tíma) bætum við túrmeriki, salti og chhole ka masala út á. Því næst bætum við hökkuðum tómötunum og vatninu út í og leyfum suðu að koma upp. Þegar suða hefur náðst bætum við kjúklingabaununum við og hrærum saman. Garam masala bætt út í og hrært. Látið malla í 10 mín.
Fínt söxuðum kóríander dreift yfir þegar borið fram. Þennan rétt er kjörið að bera fram með grjónum en einnig er vinsælt að bjóða upp á gott flatbrauð, t.d. garlic butter naan.
Hér eru svo myndir frá dvöl okkar í Rishikesh, svona fyrir þá sem vilja fá sjónrænt bragð líka.
Hér eru svo myndir frá dvöl okkar í Rishikesh, svona fyrir þá sem vilja fá sjónrænt bragð líka.
*Chana masala er kryddblanda einkum ætluð kjúklingabaunauppskriftum. Þar sem ég keypti mitt chana masala í Indlandi veit ég ekki hvort það fáist á landinu svo ég læt fljóta með helstu innihaldsefni chana masala kryddblöndunnar, þá er í það minnsta hægt að líkja eftir henni að einhverju marki: Kóríander, þurrkað mangó, pomgranate fræ, chili, broddkúmen, musk melon, svartur pipar, svart salt, fenugreek lauf, kardimomma, mynta, múskat, þurrkað engifer, kanill, lárviðarlauf.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli