mánudagur, 5. nóvember 2012

Ferð í Garðinn

Í gær fórum við Pétur afi í smá bíltúr út fyrir bæjarmörk höfuðborgarsvæðisins. Hugmyndin var að prófa nýja fína Citroeninn á beinum og góðum vegum þar sem eiginleikar og búnaður eins og cruise control kæmu að notum. Ástæðan fyrir því að Garðurinn var valinn til verksins var sú að þarna hafði afi stundum verið sem barn hjá frændfólki okkar sem þarna bjó.

Auðvitað stóðst bíllinn prófið með glæsibrag, klessulá á veginum og krúsið stillt á 90. Þegar við komum í Garðinn ókum við beint inn að því sem heita Gerðar og fundum þar Steinshús, þar sem afi hafði verið, húsið hennar Unu á bakvið og svo fræddi afi mig um hvaða hús hefðu verið þarna þegar hann var lítill, hverju hefði verið bætt við og auðvitað af dvölum sínum á svæðinu.

Tvo staði heimsóttum við í von um að rekast á lókalfólk: kirkjugarðinn og sundlaugina. Í kirkjugarðinum fundum við auðvitað frændfólkið og í sundlauginni hittum við nokkra skrafhreifna og skemmtilega menn en bara utanbæjarmenn. Auðvitað renndum við niður að vita, gengum aðeins í fjörunni og þá mundi ég loksins eftir myndavélinni.

Það var gaman að koma í Garðinn á svona fallegum degi og sjá hvað fjallahringurinn allt utan frá Snæfellsnesi og inn að Skálafelli setur mikinn kraft í bæjarstæðið með því mikilfenglega útsýni sem það býður uppá. Við kíktum aðeins í Sandgerði og þótti hvorki bæjarstæðið né bærinn sjálfur eins spennandi og Garðurinn en tókum samt bensín og fengum okkur skyr í kaupfélaginu. Héldum svo aftur til höfuðborgarinnar með svolitlum krók fyrir flugvöllinn og bíltúr um Hafnir, urðum að sjálfsögðu að prófa þann nýja möguleika.

Untitled 

Garðskagaviti 

1 ummæli:

Unknown sagði...

En skemmtilegt. Dásamlegur staður, dásamlegur texti, fallegar myndir, fallegir menn og gullfallegur bíll.