mánudagur, 8. júlí 2013

Tilvistarkreppa yfir kössum

Tómir kassar

Flutningamess

Flutningamess

Untitled

Úff, við höfum verið hræðilega löt við að taka upp úr kössum! Kannski af því að við vorum að taka upp úr kössum síðast í október?!

Eníveis, við erum loksins búin að græja eldhúsið, kláruðum það um helgina og nú er manni óhætt að fóta sig þar um án þess að eiga í hættu á að reka tá í horn á kassa, missa jafnvægið og detta ofan í opinn kassa, eiga þar tvo kosti í stöðunni: ýmist daga þar uppi eða lenda á sperrtum göfflum. Já, þær eru ýmsar hætturnar þegar allt er í flutningamessi.

Ég finn að ég þarf að venjast því að hafa allt dótið mitt uppi við og aðgengilegt. Til að byrja með fannst mér hræðilega íþyngjandi að vita af öllu dótinu hér og finna hvernig möguleikinn á að ferðast létt, þessi af-stað-og-út möguleiki, er horfinn í þessari jöfnu. Eða hvaða bakpokaferðalangur burðast með púsluspil, orðabækur, styttur og kertastjaka, dúka og diska? Flökkueðlið er greinilega ekki alveg tilbúið til að draga inn klærnar. Ætli ég þurfi ekki að pússa þær aðeins.

En í dag þegar ég fór að gramsa fyrir alvöru í kössunum, taka upp úr, endurraða og endurstafla, fann ég að ég gæti hugsanlega vanist þeim lúxus að hafa aðgang að dótinu sínu. Að hafa jafnvel fleiri handklæði í gangi en bara fjögur (lúxusinn!), aðeins fleiri sængurver í boði en bara til skiptanna... Geta jafnvel - ef það dettur í mann - kíkt í gömlu dagbækurnar og rifjað upp hvað maður var að pæla á unglingsárunum.

Já, kannski að þetta sé ekki alslæmt að eiga allt þetta dót. Samt...

Eitt af því skemmtilegasta í dag var þegar ég fann svolítið sem hafði verið í miklu uppáhaldi og þrátt fyrir að vera hálfónýtt hafði ég pakkað því niður með það í huga að geta jafnvel einn daginn lagað það. Eða... laga er kannski ekki rétta orðið, breyta er kannski nær lagi.

Hér eru gamlar og slitnar gallabuxur...

Hér er ein skálmin dottin af...

Og hin...

Tada, stuttbuxur!

Engin ummæli: