sunnudagur, 30. september 2001

Við höfðum það ósköp náðugt í dag, Baldur var reyndar að vinna á Moggabílnum og kom ekki heim fyrr en kl. 16 þótt hann eigi að vera búinn kl. 14:00. Svo var mál með vexti að hann var beðinn um að fara með stafla af Mogga út á flugvöll, blöðin átti að senda til Vestmanneyja, og honum var sagt að flugvöllurinn væri einhversstaðar á milli Hellu og Hvolfsvallar. Svo reyndist þó alls ekki vera og leiðin var mun lengri en hann hafði gert ráð fyrir svo úr varð að hann kom seinna í bæinn en hann bjóst við.

Um kvöldið fórum við síðan í matarboð til Ólafar og Jóa eins og hefðin er orðin á sunnudögum. Það var ósköp kósý eins og alltaf og gott að borða, ég var meira að segja að smakka Tofu í fyrsta sinn! Þau urðu stórundrandi og spurðu Baldur hvernig hann eldi mig eiginlega upp en hann getur lítið af þessu gert, ég kem úr algjörri kjötætuætt og það tekur mig smá tíma að gerast ultimate grænmetisæta, Róm var ekki byggð á sjö dögum, hmm.

laugardagur, 29. september 2001

Í dag fórum við í brúðkaup Einars og Sólveigar sem haldið var í Skálanum á Hótel Borg. Það var ágætisveisla og við óskum brúðhjónunum hjartanlega til hamingju. Það er farið að skína í bumbuna á Sólveigu og þetta verður áreiðanlega myndabarn.

Við stoppuðum ekki mjög lengi enda var okkur boðið út að borða seinna um kvöldið. Andri brósi átti nefnilega afmæli, varð 19 vetra, og pabbi bauð okkur öllum á Pizza Hut. Það er alltaf jafn mikið að gera þar og alltaf lendum við í einhverju smá veseni. Þetta var samt mjög kósý og eftir á tóku strákarnir ræmu, Oh brother where art thou?, sem við gláptum á. Myndin kom á óvart og við mælum með henni.

föstudagur, 28. september 2001

Frídagur í dag eins og alla föstudaga (þ.e frá skóla). Er búin að hamast við að klára heimasíðuna, það væri gaman að geta komið henni á netið þann 1. okt. Annars hef ég ekki beinlínis efni á að hangsa svona fyrir framan tölvuna, ég þarf að lesa upp heilan helling, ég er enn þá langt á eftir námsáætlun í tveimur fögum.

Ég er reyndar alls ekkert ein um það, allir sem ég hef talað við eru á sama máli, enginn byrjaður að lesa og við erum sammála um að þessar tafir sem eru á að fá námsefnið hafi dregið úr manni mestan kraftinn. Við erum t.d. ný búin að fá heftin fyrir Samræður við samfélagið, fengum það eftir 3 vikna bið. Ég held að það sé ekki heil brú í þeim sem sjá um Háskólafjölritun, þeir eru dýrastir og lélegastir, hvað eru kennarar að pæla að leita til þeirra!??

fimmtudagur, 27. september 2001

(Fyrsta færslan)

Í dag var fyrsti dagurinn okkar í liðveislunni. Við veittum ungum dreng liðveislu, hann er framheilaskaðaður og þarf talsverða hjálp en hann hefur víst tekið ótrúlegum framförum. Við erum enn að bræða með okkur hvort við tökum hann að okkur.

Annars má Baldur ekki við mikið meiri vinnu eins og er, með 100% í ÍE og síðan aðra hverja helgi hjá Mogganum. Ég ætla nú líka að fara að standa mig í stykkinu, ég fer með umsókn upp í skóla á morgun varðandi það að gerast mentor með grunnskólabarni.

laugardagur, 15. september 2001

Evrópureisan

Þann 10. ágúst 2001 lögðum við upp í þriggja vikna Evrópureisu. Farangurinn samanstóð af tjaldi, tveimur svefnpokum og dýnum og tveimur bakpokum. Við létum engan vita hvert ferðinni væri heitið og uppskárum áhyggjufulla foreldra og mikinn tölvupóst frá forvitnum vinum. Í lok ferðarinnar mátti fólk giska hver seinasti áfangastaðurinn okkar yrði og þeir sem giskuðu rétt fengu smá verðlaun fyrir gott gáfnafar (eða heppni).

London

Ferðinni var fyrst heitið til London þar sem dvalist var í þrjár nætur og merkir staðir skoðaðir eins og British Museum, Tower of London, Holland Park, Oxford Street, Soho, Notting Hill, Hyde Park, Buckingham Palace, Big Ben, Trafalgar Square og Piccadilly Circus svo fátt eitt sé nefnt.


Staðalbúnaður ferðalangs í London: Tjald, dína og rauður símaklefi

Þar sem við vorum ekki á hjóli varð Baldur að taka mig á háhest svo við kæmumst yfir á ljósunum


Baldur og Stóri Benni

Piccadilly Circus

London Bridge

You better believe it!


Nauðsynlegt að lesa textann á götunum

James Bond herbergið okkar

Kaupmannahöfn

Þaðan flugum við síðan til Kaupmannahafnar þar sem við gistum á tjaldstæði í um viku. Það var tími afslöppunar og leti. Við kíktum auðvitað í Tívolí og á Strikið, skoðuðum Christianiu og keyptum vínarbrauð.

Í strætó á leið upp á tjaldstæðið í Rødovre

Pikknikktúnið okkar við Netto og pósthúsið

Öruggur staður til að vera á

Ráðhústorg

Stytta af hæsta manni heims

Lægsta kona heims

Christiania




Í Tivoli


Klessubílarnir

Tivoli krefst einbeitingar

Heimilið

Á pikknikktúninu

Svíðþjóð

Eftir vikudvöl pökkuðum við niður, héldum niðrá höfn og tókum næstu ferju til Svíþjóðar. Við skoðuðum háskólabæinn Lund (leist ekkert á hann), fórum síðan til Gränna sem er bær við vatnið Vättern og þar tjölduðum við í 5 nætur. Þar neyddumst við til að vera enn latari en í Köben af þeirri einföldu ástæðu að þar var ekkert að gera nema svamla í vatninu og það gerðum við nóg af.

Komin til Málmeyjar








Svo sænskt

Svo sætur

Eplatré


Armbeygjur fyrir svefninn, hvað annað?

Aftur til Kaupmannahafnar

Eftir 6 daga í Svíþjóð vorum við komin með nóg og héldum til Köben aftur og fannst við vera komin heim. Þar sváfum við á sama tjaldstæðinu og voru ekkert að hafa fyrir því að láta neinn vita (sem sagt gistum frítt).

Amsterdam

Þann 28. ágúst flugum við síðan til London og sama dag beint til Amsterdam þar sem við lentum í mestu hrakningunum. Við fundum ekki gistingu (þorðum ekki fyrir okkar litla líf að gista í tjaldi) en urðum að lokum að sætta okkur við subbuhótel fyrir morðfjár. Húsið var nær að hruni komið og eftir eina svefnlausa nótt þar ákváðum við að tjaldstæðið gæti ekki verið verra en þetta.

Við reyndumst sannspá því það var rottuhola líka, plúsin var að það var ódýr rottuhola. Við höfðum aðeins tvo daga til ráðstöfunar í Amsterdam og þeir fóru í labb um borgina, við skoðuðum hús Önnu Frank og kíktum í dýragarðinn og síðan auðvitað á hið alræmda Rauða hverfi.


Á tjaldstæðinu í Amsterdam - afskaplega hughreystandi skilti



Skýrir sig sjálft

Rauða hverfið - hvað annað?

Steingeitur í dýragarði (ein með gleraugu, hinar með horn)

Svo hollenskt

Beðið eftir ferju

Heimferðin

Þann 31. ágúst flugum við síðan heim, fluginu frá Amsterdam til London seinkaði um 3 tíma og við vorum næstum búin að missa af vélinni heim. Frábær ferð sem við mælum með fyrir alla.


Í flugvélinni var litið í spegil


Fjölskyldan sameinuð, frá vinstri: Baldur, Fríða Sól, Ásdís & Stjarna

(Ferðasaga fullgerð þann 15. desember 2005 og sett á netið)