miðvikudagur, 3. október 2001

Í dag féll niður umræðutíminn í kenningum í félagsvísindum. Strangi kallinn sagði að maður mætti ekki mæta í tíma ólesinn og þar sem hann gerði ekki ráð fyrir að við næðum að lesa allt fyrir tímann gaf hann frí. Því var dagurinn viðráðanlegur, aðeins þrír tímar í mannfræðikenningum seinni ára hjá Svenna. Og það sem meira var, við stelpurnar gátum næstum haldið þráði allan tímann. Ég held að það sé nú bara vegna þess að talað var um hluti sem við skildum og orð og hugtök notuð sem við höfðum heyrt áður eins og samkynhneigð, tvíhyggja Descartes, kyn og kynferði etc. Við Lísa ræddum við stelpurnar um leshópinn og þær voru mjög spenntar, við létum þær skrá sig á blað og nú erum við orðnar sjö talsins. Þetta verður öflugur leshópur og nú er bara að passa það að hann breytist ekki í einhvern kjaftasaumaklúbb, við verðum að skilja námsefnið!
Eftir tímann sótti ég Baldur í vinnuna og hann kom með mér að lyfta upp í háskólagymmi. Þar þrælaði hann mér út og kenndi mér réttu handtökin. Það er alveg frábært að hafa svona sætan einkaþjálfara sem er svona yndislegur eins og hann :)

Engin ummæli: