þriðjudagur, 9. október 2001

Mikið að gera í lestrinum í dag, klára Marx og byrja á Weber, ekki beint draumalesning. Við fórum í sund seinnipartinn, ætlum að reyna að fara 3 sinnum í sund á viku. Við ætlum einnig að lyfta 3 í viku þannig að það verður nóg að gera með náminu í vetur.

Heiddi kíkti í heimsókn áðan, hann var að láta Baldur fá afmælisgjöfina sína (hann á afmæli í apríl!) og í staðinn fékk hann loksins verðlaunin sín fyrir þátttöku í leiknum Hvar erum við? Við leyfðum nefnilega fólki, þ.e. vinum og ættingjum, að giska hvert lokalandið í ferð okkar væri, og sá sem giskaði rétt átti að fá verðlaun. Við vorum því búin að finna einn sætan verðlaunagrip handa hinum klóka og bjuggumst allt eins við að enginn giskaði á rétt land og ætluðum bara að eiga verðlaunin sjálf, en nei það var ekki hægt, þrír giskuðu á Holland og þeir fengu því verðlaun. Þessir þrír voru: pabbi minn (Elfar), Stella Soffía (systir Baldurs) og síðan Heiddi (vinur Baldurs).

Annars á heimasíðan að vera "gefin út" á morgun, við ætlum að láta vini og vandamenn vita hver slóðin er og þá fara þeir vonandi að fylgjast með. Já á morgun verður þú sett á netið dagbók kær. Hmm, ég vona sannarlega að ég lendi ekki í einhverju veseni með að setja hana inn á morgun, Baldur í vinnunni og getur ekki hjálpað...katastróf.

Annars er ég búin að finna annað orð sem svipar til orðsins vesen, en það er þýska orðir Wesen sem er nafnorð yfir sögnina að vera, á ensku being. Allir þekkja frasann að á færeysku þýðir vesen klósett og mín fjólskylda er löngu búin með sinn kvóta af bröndurum byggðum á hugsanlegum misskilningi milli okkar og þeirra vegna þessa orðs. Ég vissi hins vegar ekki að Þjóðverjar þyrftu kannski líka að þola þessa brandara í hverju fjölskylduboði. Athyglisvert.

P.s. Hef ekki verið dugleg við Allende-lesturinn, er enn að lesa Sannleikann, en ég fer örugglega að setja meiri kraft í þetta núna því ég var að blaða í næstu bók, sem er Afródíta, og fannst hún spennandi.

Engin ummæli: