sunnudagur, 7. október 2001

Við keyptum okkur bók í dag eftir Salman Rushdie. Sú heitir Hinsta andvarp márans og ég verð að viðurkenna fáfræði mína hvað þessum höfundi viðkemur því ég hef aldrei heyrt hans getið. Þetta er önnur bókin sem við kaupum í þessari viku, við keyptum okkar fyrstu bók eftir Salman Rushdie um daginn, bókina Söngvar satans, og því eigum við nú allt í einu tvær bækur eftir þennan kall. Ástæðan fyrir því að við keyptum þær var sú að Baldur varð þvílíkt upprifinn, já þetta verður maður að lesa, og þegar hann sá verðmiðann varð hann enn ákveðnari. Samanlagt kostuðu bækurnar okkur tæpar 2000 kr., innbundnar og alles.

Eftir þessi mögnuðu bókakaup fórum við í sund, syntum í sprettum og það tekur þvílíkt á. Eftir sund var farið í sunnudagsmatarboðið, í boði var ofnbakaður réttur með rófum, eggjum, grænkáli og fleira hollu og góðu.

Þegar við komum heim tókum við eftir því að hringt hafði verið í okkur frá Þingási, þegar við hringdum til baka komumst við að því að þar á bæ átti líka að bjóða okkur í mat. Reyndar ekkert merkilegt (enda bara um pabba og brósa að ræða) heldur bara hina hefbundnu föstudagspizzu sem varð að færast vegna Silungaveislunnar. Við erum greinilega vinsælir gestir í matarboð, það er líka fínt, spara okkur matarpeninginn!

P.s. Búin með Paula, frábær bók, er nýbyrjuð á Sannleik allífsins.

Engin ummæli: