mánudagur, 17. desember 2001

Íííhaaa!

Það fór þó aldrei svo að maður ætti ekki eina bók í jólabókaflóðinu í ár. Reyndar á ég ekkert í henni.... og þetta er kannski ekki beint partur af jólabókaflóðinu... en samt, hún kom út fyrir jólin, það dugir mér.

Þannig er mál með vexti að í febrúar í ár var dagur dagbókarinnar og Baldur tók þátt í því með því að senda inn hugrenningar sínar. Síðan voru bara nokkrir af þeim sem tóku þátt sem fengu að fara í þessa bók og Baldur minn var einn af þeim.

Við vorum búin að steingleyma því að þetta ætti að koma út í bók, það var ekki fyrr en um daginn sem við mundum eftir því þegar við fengum bréf frá Kristjáni hennar Stellu þar sem hann var að biðja okkur að ná í þessa bók fyrir sig, hann á nefnilega líka smá part í jólabókaflóðinu. Við Stella ættu sko sannarlega að vera stoltar af köllunum okkar. Á örskömmum tíma má því segja að Baldur sé orðinn bæði stórsöngvari og rithöfundur. Eftir áramót ætlar hann síðan á listmálaranámskeið og skapa eitt stykki málverk handa mér. Hvar endar þetta?

Annars er ég búin í prófunum núna, þetta er bara of gott til að vera satt. Í tilefni af því gaf Baldur mér eina afmælisgjöf, nr. 12, það var bókin eftir Isabel Allende, alveg frábært. Ég hef nú aldrei þjófstartað áður í jólabókunum, en einhvern tíma er allt fyrst.

Sem ég keyrði Miklubrautina upp í vinnu til Baldurs eftir prófið tók ég eftir því að í þessum svaka hlýindum sem leikið hafa um landið undanfarið hefur grasið orðið græn! Maður hefur upplifað snjólaus jól, ok, en grænkandi gras, það er einum of. Ég vona bara að þetta sé eitthvað ofvirkt vítamíngras sem fatti að það eigi ekki heima á jólunum þótt grænn sé einn af litum hátíðarinnar.

P.s. Baldur hringdi meðan ég var að skrifa og kom með eitt gullkorn sem honum flaug í hug. Hvað eru rasspeningar? Nú, þjórfé!

Engin ummæli: