þriðjudagur, 11. desember 2001

Loksins!!!!!!!!!

Við erum komin með tölvuna í gang. Ég var farin að efast um að það hefðist fyrir nýja árið, það er búið að vera endalaus smáatriði sem þurfti að redda. En núna er allt komið í gang og tölvan betri en nokkurn tíma fyrr :) Ég tók reyndar eftir því að myndirnar koma ekki upp á dagbókinni, við verðum bara að redda því hið snarasta en á meðan vona ég að þið látið ykkur hafa það.

Úff, mikið er leiðinlegt að hafa misst allan þennan tíma úr, tvær vikur næstum því sem við erum ekkert búin að skrifa. Það hefur verið nóg að gera eins og venjulega, ungarnir eru að sprengja þetta litla hamstrabúr utan af sér, kisa er farin að hlakka til jólanna en óskaplega fegin samt að snjórinn skuli vera farinn, Fríða Sól lifir í sínum tímalausa heimi, ég berst við kenningar Bourdieu, Merleau-Ponty og Foucault og Baldur er orðinn stórsöngvari. Segið svo að við höfum ekkert haft fyrir stafni þessar fyrstu vikur desembermánaðar!

Já, yndislegur desember er komin, svo margt sem þá gerist (lesist með viðeigandi tóni). Svo margt frægra sem þá fæddust, Jesús og Ásdís María to mention just a few :) Við erum búin að skreyta allt hátt og lágt, okkur vantar bara jólaseríur í gluggana og þá er allt komið.

Við eyddum einu laugardagskvöldi um daginn í að föndra heima hjá mömmu og fólst föndrið að þessu sinni helst í perli og súkkulaðiáti. Það var alveg ferlega gaman og margt sem rifjaðist upp í leiðinni, enda langt síðan maður perlaði síðast. Ég tók t.d. eftir því hversu vantrúaður maður er núna á að geta perlað og ef maður er með uppskrift fyrir framan sig verður maður að fara eftir henni út í ystu æsar, annars...já bara katastróf sko. Þegar maður var pons hins vegar var þetta allt í hausnum á manni og uppskriftir voru fyrir mömmur og ömmur til að prjóna á mann peysur (sem maður gekk svo misjafnlega mikið í).

Prófin vofa yfir manni eins og Kolbeinn latínukennari forðum (hrollur). Fyrsta þrautin hefsta þann 13. klukkan 13:30 að staðartíma. Næsta þraut er síðan háð þann 15. og lokaþrautin, 18. des., kallast þrímenningaglíma þar sem ég og aðrir samnemendur mínir munum kljást við heljarmennin Marx, Weber og Durkheim. Og eftir það er ég frjáls. Annars ætti ég ekki að setja fram slíka fullyrðingu eftir allt þetta heimspekital um frelsi, ég verð frjáls á minn hátt en þó ekki alfrjáls.

Í kvöld er það svo málþing um börn og mannréttindi í Borgarleikhúsinu. Frummælendur þar verða m.a. Jóhanna K. Eyjólfsdóttir framkvæmdastjóri íslandsdeildar Amnesty International og mannfræðingur og Jónína Einarsdóttir mannfræðingur og kennari minn í mannfræði barna. Ég mæti sko með blokk og penna, þetta er einmitt það sem við höfum verið að fjalla um í námskeiðinu, þ.e. barnasáttmáli SÞ frá 1989 og gagnrýni á hann og nú fær maður að vita hvaða hugmyndir eru uppi hvað þetta varðar. Hlakka til og mæli með að fólk mæti.

Post scriptum: Vantar einhvern kanínu?

Engin ummæli: