Þetta er nú búinn að vera meiri dagurinn. Hann byrjaði ansi sakleysislega, við sváfum vel og komum okkur síðan af stað upp úr eitt leytinu. Við skiluðum bílnum hans Bigga og vorum aftur komin á Skjóna. Þegar við vorum búin að ræsa bílinn og keyra spottakorn tókum við eftir því að bensínnálin steig ekkert, stefnuljósin voru óvirk og blikkpungurinn var þögull sem gröfinn. Þá fattaði Baldur að öryggið væri farið þannig við upp á næstu bensínstöð að skipta um það.
Eftir þá smávægilegu viðgerð vildi bílinn einfaldlega ekki í gang, sprengingar heyrðust og Baldur hefði eflaust haldið áfram að þrjóskast með að starta druslunni hefði starfsmaður Olís ekki komið hlaupandi með angistarsvip til að tilkynna okkur að neistaflug og eldglæðingar stæðu undan bílnum. Svekkt í bragði ýttum við bílnum í næsta stæði og löbbuðum heim. Óþekki Skjóni!
En við höfðum ákveðið að heimsækja Stellu ömmu í dag og því kom Pétur afi að sækja okkur. Hjá þeim fengum við þessar líka fínu rjómabollur, namm. Eftir spjall og kósýheit keyrðu þau okkur út í Hamraborg þar sem Skjóni stóð einmana, Baldur var núna með nokkur heilræði frá Kalla afa í farteskinu, nú skildi bílinn í gang. Kraftaverk, hann fór í gang við þriðju tilraun og við brunuðum í mat til Ólafar og Jóa, cous-cous upp á afríska vísu, svakalega gott. Eftir heitan tebolla héldum við heim á leið, en aðeins til að verða fyrir öðru áfalli....
Þannig er mál með vexti að þegar við komum inn eftir að hafa verið að heiman í einhvern tíma kíkjum við á Fríðu Sól, ertu með nógan mat, ertu með nóg vatn, ertu lifandi, þú ert þvílíkt kríli, slíkar ástæður höfum við fyrir þessu. Í kvöld brá okkur þó heldur betur í brún, ekki sást tangur né tetur af Fríðu! Búrið var harðlæst, engin útgönguleið héldum við.
Við erum greinilega ekki nógu forsjál, Fríða Sól hafði nefnilega nagað sig í gegnum varnagarðinn sem við höfðum sett upp seinast þegar henni tókst að sleppa. Við tók taugastekkt leit þar sem Baldur tönglaðist á frasanum "vertu róleg, vertu róleg" en í raun var hann sá stressaði. Við náðum í vasaljós og allar græjur og byrjuðum á því að kíkja undir allar mublur en engin Fríða.
Sem ég stend fyrir framan hillurnar þar sem búrið hennar er heyri ég smá þrusk og hamstrahljóð. Ég kalla í Baldur: " Ég heyri eitthvað". Baldur: "Vertu róleg, vertu róleg, hlustaðu" en áður en hann náði að klára þennan frasa hafði ég séð lítið snjáldur gægjast út um einn blaðakassann sem er tveimur hillum fyrir neðan búrið. Hún hafði sem sagt nagað sig í gegnum allt, fleygt sér síðan niður að aftanverðu við hilluna og einhvernveginn náð taki á þessum blaðakassa, hysjað sig upp í hann en ekki komist upp aftur. Óþekka Fríða!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli