Eftir áramótin ákváðum við Baldur að taka okkur á og skipuleggja okkur betur, þannig kemur maður nefnilega miklu meira í verk. Við settumst því niður og skipulögðum gróflega hvern dag vikunnar, vakna kl. þetta, fara sofa kl. þetta, kvöldmatur, lyftingar, sund, lærdómur, matarboð o.s.frv.
Við gleymdum reyndar að setja eitt inn á þetta plan, að skrifa í dagbókina. Við teljum það vera ástæðu þess hve vanhirt hún hefur verið undanfarið, litla greyið. En núna ætlum við að kippa því í liðinn, ætli dagbókarskrif verði ekki sett á 17:00, mér sýnist við eiga lausan tíma þá.
Að allt öðru, fólkið í kringum okkur, okkar nánustu, hafa verið alltof dugleg við að eiga afmæli undanfarna daga. Við biðjumst afsökunar á því að hafa ekki tilkynnt þessi merku tíðindi hér fyrr en sökum misritunar í tímaplani gleymdist það alveg. En við gleymdum þó ekki að óska afmælisbörnunum til hamingju með daginn, Kristján fékk tölvupóst frá okkur öllum (með kveðjum frá dýragarðinum), Stella var vakin árla morguns við blíða rödd bróður síns og pater meus fékk koss á kinn frá okkur báður strax á miðnætti. Við ætlum að bæta við smá upplýsingum um þessi merku börn hér fyrir ofan þessa færslu.
Af dýragarðinum er þetta helst: Bjartur og Rúdólfur er að fá spena og eru óskaplega skapillir þessa dagana. Pirringurinn er helst talinn stafa af meintu kynþroskaskeiði sem strákarnir eru að að öllum líkindum að ganga í gegnum. Þeir slást mikið og í þessu litla búri myndast lítil hringiðja við slík átök sem hefur í för með sér að sagkubbar og skítakúlur endursendast þvert yfir þurrkherbergið. Greyið Kisa, þessi virðulega frú, þarf að deila herbergi með þessum trúðum og stendur hreint ekki á sama. Við sjálf erum orðin þreytt á að vera í Öskubuskuhlutverkinu, þrífa skítakúlur af gólfinu á klukkutímafresti getur orðið verulega þreytandi starfi. Fríða Sól er svo heppin að hafa aðsetur í forstofunni og verður því ekki vör við þessi læti í drengjunum.
Að lokum er þetta helst: Baldur er enn að drepast í bakinu sökum tognunar sem hann hlaut er hann lyfti upp einhverju þyngslinu. Hann verður að öllum líkindum frá vinnu næstu viku. Ásdís er komin á fullt á vorönninni enda skráð í 22 einingar sem er rúmlega eitt og hálft nám ef það má orða það svo.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli