Baldur fór niðrí dýraspítalann í Víðidal í dag og fékk gefins stórt kanínubúr. Við erum nefnilega að leggja drögin að flugi annars af strákunum úr hreiðrinu og þá er fínt að hafa búr undir litla greyið, það er þá einskonar heimanmundur. Við settum strákana báða í nýja búrið sem er ólíkt stærra en hið fyrra og síðan settum við Fríðu Sól í tóma búrið og leyfðum henni að flippa út í víðáttubrjálæðinu. Eins og henni er von og vísa tókst henni fljótlega að sleppa úr prísundinni með því að troða sér milli rimlanna.
Baldur er núna á kóræfingu eftir nokkurra æfinga hlé. Ég er hins vegar ein heima og hef það kósý, er að lesa fyrir etnógrafíu eyjaálfu á morgun, var m.a. að lesa um nýlendutímann á Kyrrahafssvæðinu. Ég hlakka til þegar Baldur kemur heim af æfingu, þá er nefnilega kominn tími fyrir kvöldlesturinn þar sem ég sit og sötra bangsate og Baldur les fyrir mig ævintýri Múmínálfanna. Eftir að fyrstu bók lauk fór ég nefnilega á bókasafnið og tók allar bækur sem ég sá um múmín. Bók tvö er víst ófáanleg, við erum búin að eltast við hana ansi lengi en Borgarbókasöfnin eiga bara eitt eintak eftir sem er týnt og Landsbókasafn á einnig bara eitt eintak sem er í geymslu niðrí þjóðdeild og er skilgreint svona: Notkun á staðnum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli