Gærdagurinn var nú ansi skrautlegur. Eftir að hafa setið sem fangi í Odda í marga tíma kom Baldur loksins og við fórum í matarboðið góða. Við lögðum síðan ekki af stað heim fyrr en um níu leytið og komumst þá að því, okkur til mikillar skelfingar, að eitt afturdekkið á Skjóna var sprungið. Nú voru góð ráð dýr því við áttum ekkert varadekk.
Nú hugsið þið eflaust: "Þvílíkt kæruleysi, vera ekki með varadekk" en það er sko ástæða fyrir því. Ég ætti kannski að byrja á því að minnast á að þetta er núna í fjórða skiptið sem springur undan druslunni á tæplega tveimur mánuðum, seinustu þrjú skiptin hafa gerst öll innan eins mánaðar þannig að okkar varadekkjaforði var ansi flótur að fara.
Til að gera annars stutta sögu ívið lengri ætla ég að fara aðeins til baka, allt til ársins 2001 (lágur trommuþytur). Við Baldur voru í sakleysi okkar á leið í skólann þegar allt í einu gerðist það að bíllinn fór að láta skringilega. Sprungið. Baldur var snöggur til og skipti um dekk enda áttum við eitt varadekk í skottinu. Reyndar vorum við meira segja mjög fyrirsjál og áttu tvö önnur aukadekk en þau voru upp á Þingás hjá pabba því við fengum að geyma þau þar um daginn og höfðum enn ekki lagt í að hala þeim aftur í skottið.
Nú erum við síðan komin til ársins 2002, ég er nýlega byrjuð í skólanum, það er fimmtudagsmorgun og ég er að verða of sein í Þjóðernishópa. Við hlaupum út í bíl og Baldur byrjar að bakka upp innkeyrsluna. Þetta er nú ekki mikill bratti en druslan meikaði þetta engan veginn, hvað gat valdið? Sprungið. Æ, æ, engin varadekk munið þið. Baldur hleypur út á bensínstöð og kaupir svona stöff sem blæs út dekkið en ventillinn er bilaður þannig að þetta plan virkar ekki. Plan B: hringja í Bigga vin, sem reddar mér í skólann og Baldri ferð upp á Þingás til að ná í varadekkin.
Nú vorum við sko í góðum málum, varadekk í skottinu og ekkert mál. Akkúrat tveimur vikum seinna erum við á leiðinni heim og stoppum á bensínstöðinni í Hamraborg til að pumpa í eitt dekkið. Síðan keyrum við heim á leið, hress í bragði. Við erum í bílageymslunni í Hamraborg og keyrum upp þessa litlu brekku sem þar er. Þá heyrist allt í einu hár hvellur, BAMM! Sprungið.
Ekkert mál, við erum með varadekk, það er meira að segja nýkomið úr viðgerð. Æ, æ, viðgerð ekki góð, dekkið er loftlaust. Baldur hleypur með það á bensínstöðina sem betur fer er ekki langt undan. Það tekur okkur alla vega hálftíma að skipta á honum, ekki hægt að tjakka hann upp því druslan er svo ryðguð. Tekst þó að lokum, keyrum heim á leið þung á brún, aftur orðin varadekkjalaus. Ákveðum að kaupa nýjan bíl en láta þennan duga í millitíðinni, varla fer að springa á greyinu á tveimur vikum.
Bjartsýni borgar sig ekki, hmmm. Hægra afturdekkið var loftlaust þegar við komum út í gær, skiljanlega gátum við ekki skipt á honum, sem betur fer eigum við góða að og fengum því skutl upp í Kópavog til Kalla og Ólafar, þau lánuðu okkur jeppann. Nú er að duga eða drepast, ekki gengur lengur að keyra um á þessu stórhættulega farartæki.