Eftir maraþonsetuna á Bókhlöðunni í gær var ég komin með virkilega bogið og þreytt bak. Af hverju þurfa borðin að vera svona svakalega lág? Mikið er ég fegin á þessar stundu að vera svona lágvaxin, ekki veit ég hvernig aðrir fara að.
Dagurinn í dag er nokkuð áþekkur gærdeginum að því leyti að ég er þreytt í bakinu og komin með mjólkursýru í axlirnar af allri vélrituninni. Ég er núna hálfnuðu með prófið og er nýlega byrjuð að glíma við seinni spurninguna, óformlega hagkerfið og öllu sem því fylgir. Ég held að mig skorti eldmóðinn sem blés mér í brjóst í gær, ég á óskaplega erfitt með að sitja hérna og lesa og skrifa og sérstaklega á ég erfitt með að hugsa! Hvað er orðið um mig? Ég get þó prísað mig sæla með það að á morgun mun ég skila þessu af mér og þá er helmingurinn af námskeiðinu búinn.
P.s. ég er búin að nota orðabókina á netinu óspart og mikið rosalega léttir hún manni róðurinn. Ef ég þyrfti að fletta upp hverju einasta orði væri ég enn stödd í gærdeginum.